Mannauðsstefna

Mannauðsstefna Eyþings

 1.     Almennt

Mannauðsstefna Eyþings tekur til allra þeirra starfsmanna sem ráðnir eru til lengri eða skemmri tíma, bæði framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna. Mannauðsstefnan inniheldur bæði almenna stefnu og sértækar starfsreglur. Henni er ætlað að skýra megin sjónarmið og starfsreglur sem starfsmönnum Eyþings ber að taka mið af, ásamt því að stuðla að góðum starfsanda og árangursríku starfi.

 2.     Gildi

Í störfum sínum fyrir Eyþing hafa starfsmenn eftirfarandi gildi að leiðarljósi: 

Ábyrgð – Samstarf – Traust 

Ábyrgð birtist í hlutverki starfsfólks sem málsvara aðildarsveitarfélaganna og landshlutans. Á þeim vettvangi er unnið með staðreyndir, komið fram af festu og leitað eftir árangursríkum samskiptum. Starfsfólk hefur velferð samfélagsins og landshlutans alls að leiðarljósi.

Samstarf birtist í innra starfi og í víðtæku ytra samstarfi, s.s. við sveitarfélög, Samband ísl. sveitarfélaga, ráðuneyti og aðrar stofnanir.

Traust birtist í samskiptum við öll aðildarsveitarfélögin og aðra samstarfsaðila, með því að tryggja fagleg vinnubrögð og miðlun hlutlægra upplýsinga.

 3.     Ráðning og ráðningarréttindi starfsmanna

Laus störf
Laus störf eru auglýst, að undanskyldum tímabundnum störfum til skemmri tíma en eins árs. Ráðningarferlið er vandað og fyllsta jafnræðis gætt.

Ráðning
Ráðningar byggjast á hæfileikum, menntun og reynslu þess sem ráðinn er og hæfni viðkomandi til að inna starfið vel af hendi. Við ráðningu er gætt að persónulegu hlutleysi í hvívetna.
Gengið er frá ráðningu með formlegum hætti. Gerður er skriflegur ráðningarsamningur með tilheyrandi starfslýsingu. Ráðningarsamningur þarf að vera skýr og innihalda almenn ákvæði s.s. um kjarasamning, vinnutíma, yfirvinnu og lífeyrisgreiðslur. Að auki þarf að tilgreina fyrirvara um önnur störf og að mannauðsstefna Eyþings teljist hluti ráðningaramnings. Heimilt er að hafa ráðningu í upphafi til reynslu í þrjá mánuði. Að reynslutíma loknum er starfsfólk almennt fastráðið. 

Móttaka
Vandað er til móttöku á nýjum starfsmanni. Í því felst m.a. að kynna hann fyrir samstarfsmönnum, að vinnuaðstaða sé með viðeigandi hætti, að hann fái allar nauðsynlegar upplýsingar um starfið og kynningu á vinnustaðnum.

Launalaust leyfi
Heimilt er að veita starfsmanni launalaust leyfi ef aðstæður leyfa en þó að hámarki í 12 mánuði.
Einungis er veitt launalaust leyfi, þegar til þess liggja ríkar ástæður. Þær ástæður, sem helst koma til álita, eru framlenging á fæðingarorlofi, leyfi til náms sem nýtist í starfi, sérstakar fjölskylduástæður og aðrar ástæður sem til þessara má jafna. Ef starfsmaður hyggst ráða sig í aðra vinnu til lengri tíma en þriggja mánaða skal að jafnaði ekki veita launalaust leyfi. Sama starfsmanni er ekki veitt endurtekið leyfi nema liðin séu minnst þrjú ár frá því það var síðast veitt eða að sérstakar fjölskylduástæður réttlæti það.

 4.     Starfsþróun

Starfsmannasamtöl og endurgjöf
Framkvæmdastjóri sýnir gott fordæmi í öllum verkum sínum og virkjar forystuhlutverk sitt í þágu jákvæðrar þróunar skipulagsheildarinnar. Hann ástundar reglulega endurgjöf og hvatningu og leitast þannig við að efla og styrkja hæfileika alls starfsfólks.
Framkvæmdastjóri tekur formleg starfsmannasamtöl a.m.k. einu sinni á ári.

Sí- og endurmenntun
Starfsfólki er gert keift að efla þekkingu sína og hæfni í samræmi við síbreytilegar kröfur. Viðleitni starfsmanna til að auka hæfni sína er liður í að efla starfsöryggi þeirra.

Framkoma
Samskipti milli starfsfólks einkennist af gagnkvæmri virðingu. Starfsfólk Eyþings kappkostar að vinna á grundvelli gilda og hlutverks samtakanna. Starfsfólk miðlar upplýsingum sín í milli og styður hvert annað við lausn verkefna.
Sá sem leggur annan í einelti eða áreitir kynferðislega telst brjóta grundvallarreglur samskipta á vinnustað.

 5.     Starfsumhverfi

Skipulag
Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á störfum starfsmanna. Heildræn sýn og jafnræði eru lögð til grundvallar í störfum Eyþings og þess er gætt að viðhalda góðu orðspori þess.

Upplýsingagjöf og samráð
Reglulega eru haldnir starfsmannafundir þar sem framkvæmdastjóri og starfsmenn fara yfir helstu verkefni sem unnið er að og forgangsraða eftir þörfum þeim verkefnum sem framundan eru.

Fjölskylduvænn vinnustaður
Vinnustaðurinn er fjölskylduvænn og lögð er áhersla á að jafnvægi ríki á milli vinnu og einkalífs.
Feður eru hvattir til að nýta rétt sinn til fæðingarorlofs. Jafnframt eru þeir hvattir til að vera heima hjá veikum börnum til jafns við mæður.

Jafnrétti og jafnræði
Jafnréttis- og jafnræðissjónarmið eru höfð að leiðarljósi í starfsemi Eyþings.

Launastefna
Launakjör hjá Eyþingi miðast við að laða að hæft starfsfólk og halda því í starfi með því að bjóða samkeppnishæf laun og eftirsóknarvert vinnuumhverfi.
Við ákvörðun launa og kjara skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað og greiða skal jöfn laun og kjör fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf. 

Orlof
Starfsmenn skipuleggja orlof sitt í samráði við framkvæmdastjóra. Megin reglan er að stærsti hluti orlofs sé tekinn á sumarorlofstíma.

Trúnaður
Starfsfólk gætir þagmælsku um atriði sem það fær vitneskju um í starfi og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirboðara eða eðli málsins. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

 6.     Ábyrgð og skyldur

Stjórnsýsla
Starfsfólk kynnir sér vel hlutverk Eyþings skv. samþykktum og lögum og er ljós ábyrgð sín í stjórnsýslu samtakanna. Eyþing er pólitískur samráðsvettvangur sveitarstjórna, gegnir mikilvægu stjórnsýsluhlutverki m.a. með umsýslu fjármuna í þágu sveitarfélaganna og landshlutans. Það samrýmist ekki hlutleysi Eyþings í pólitísku samráði og vandaðri stjórnsýslu að starfsmaður þess taki sæti á framboðslistum til sveitarstjórna eða Alþingis samhliða starfi sínu hjá Eyþingi. Af sömu ástæðu þá er starfsmaður ekki pólitískur fulltrúi í nefndum sveitarstjórna eða á vegum Alþingis.

Viðvera
Starfsmenn eru stundvísir. Framkvæmdastjóri, eða eftir aðstæðum annar yfirmaður, fylgist með mætingu og fjarveru á vinnutíma og skráir fjarvistir. Honum ber að kanna ástæður fyrir fjarveru og gera viðeigandi ráðstafanir ef þess er þörf. Veikindi ber að tilkynna eins fljótt og unnt er.

Aukastörf
Starfsmaður má ekki taka við starfi í þjónustu annars aðila eða taka að sér stjórnarsetu í fyrirtæki/stofnun/sveitarfélagi samhliða störfum hjá Eyþingi nema með skriflegu samþykki framkvæmdastjóra. Hafi framkvæmdastjóri sjálfur slík áform ber honum að leita samþykkis formanns stjórnar.
Rétt er að banna starfsmanni slík störf, sem í fyrri mgr. greinir, ef það er síðar leitt í ljós að þau fara ekki saman við starf hans hjá Eyþingi.

 7.     Starfslok

Fyrir uppsögn starfsmanns þurfa að vera málefnalegar ástæður og á starfsmaður rétt á skriflegum rökstuðningi fyrir uppsögn, óski hann eftir því. Mikilvægt er að tryggja að starfsþekking haldist innan vinnustaðarins og ástæður þess að starfsmaður hættir séu ljósar.
Starfsmenn láta af störfum eigi síðar en í lok þess mánaðar sem þeir verða 70 ára.

 

Mannauðsstefnan var staðfest á 306. fundi stjórnar Eyþings

27. júní 2018