Lög og samþykktir

 

 Lög EYÞINGS

 -sambands sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum-

 

I. kafli.  Nafn og félagssvæði 

1.1
Samtökin heita Samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum , skammstafað EYÞING

   1.2
Eyþing er landshlutasamtök sveitarfélaga á Norðausturlandi frá Fjallabyggð að vestan að Langanesbyggð að austan, að  báðum sveitarfélögum meðtöldum. Rétt til aðildar eiga öll sveitarfélög á svæðinu.

1.3.
Heimili og varnarþing samtakanna er á skrifstofu Eyþings.

  

II. kafli.  Markmið og hlutverk.

2.1.
Eyþing starfar með tilvísun til 97. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir nr. 69/2015.

.

 2.2.
Hlutverk Eyþings er að vera samráðsvettvangur aðildarsveitarfélaganna og sinna hverjum þeim verkefnum sem sveitarfélögin eða löggjafinn kunna að fela þeim. Markmið samtakanna er að efla samvinnu sveitarfélaganna, gæta hagsmuna þeirra, styrkja byggð og mannlíf á starfssvæðinu öllu, atvinnulega, félagslega og menningarlega.

Markmiðum sínum skulu samtökin ná m.a. með samstarfi við aðrar samstarfsstofnanir sveitarfélaga á starfssvæðinu.  Þá starfa samtökin í nánum tengslum við ráðuneyti sveitarstjórnarmála, Samband íslenskra sveitarfélaga og við önnur landshlutasamtök sveitarfélaga.

 

III.  kafli.  Aðalfundur.

3.1.

Aðalfundur Eyþings fer með æðsta vald í samtökunum.  Aðalfund skal að jafnaði halda eigi síðar en 15. nóvember ár hvert.  Fundarstaður er ákveðinn af aðalfundi.

3.2.
Stjórn Eyþings skal boða sveitarfélögum og aðalfundarfulltrúum  aðalfund skriflega með a.m.k. fjögurra vikna fyrirvara.  Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.

3.3.
Stjórn Eyþings semur dagskrá aðalfundar og sendir hana til aðalfundarfulltrúa a.m.k. tveim vikum fyrir fund.  Ályktanir og erindi sem sveitarfélög óska að leggja fyrir aðalfundinn skulu hafa borist stjórninni a.m.k. þrem vikum fyrir aðalfund og sendast út með dagskrá.

3.4.
Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:

  •  Skýrsla stjórnar  og framkvæmdastjóra um starfsemi liðins árs.
  • Ársreikningar ásamt skýrslu endurskoðanda.
  • Fjárhagsáætlun fyrir komandi ár.
  • Kosning stjórnar og varastjórnar.
  • Kosning endurskoðanda.
  • Ákvörðun um fundarstað næsta aðalfundar.
  • Önnur mál löglega fram borin.

3.5.
Það sveitarfélag eða þau sveitarfélög sem aðalfundur er haldinn hjá, skulu leggja til húsnæði fyrir fundinn,  Eyþingi að kostnaðarlausu. 

IV.  kafli.  Kosning fulltrúa til aðalfundar.

 4.1.
Á aðalfundi eiga sæti:

1 fulltrúi fyrir sveitarfélag með 300 íbúa eða færri

2 fulltrúar fyrir sveitarfélag með 301 - 800 íbúa

3 fulltrúar fyrir sveitarfélag með 801 - 1500 íbúa

4 fulltrúar fyrir sveitarfélag með 1501 - 2500 íbúa

5 fulltrúar fyrir sveitarfélag með 2501 - 3500 íbúa

6 fulltrúar fyrir sveitarfélag með 3501 – 5000 íbúa

síðan 1 fulltrúi til viðbótar fyrir hverja byrjaða 5000 íbúa.

Miða skal við íbúatölu sveitarfélags þann 1. desember fyrir hverjar reglulegar sveitarstjórnarkosningar.

Aðalmenn í sveitarstjórn og framkvæmdarstjórar sveitarfélaga, aðrir en kjörnir aðalfundarfulltrúar, hafa seturétt með málfrelsi og tillögurétti á aðalfundum Eyþings.

4.2.
Sveitarstjórnir skulu kjósa aðal- og varafulltrúa sína beinni kosningu, til fjögurra ára, í upphafi hvers nýs kjörtímabils sveitarstjórnar. Kjörgengir eru kjörnir sveitarstjórnarmenn aðildarsveitarfélaga og varamenn þeirra, svo og framkvæmdastjórar sveitarfélaga.

4.3.
Eyþing greiðir ekki kostnað vegna aðalfundarfulltrúa.

4.4.
Heimilt er sveitarfélagi að tilnefna aðalfulltrúa til bráðabirgða ef aðal- og varafulltrúar  eru forfallaðir.

4.5.
Aðalfundur er opinn til áheyrnar á meðan húsrúm leyfir.

 

V. kafli. Kjör stjórnar og starfssvið.

5.1.
Stjórn Eyþings skal skipuð sjö mönnum. Kjósa skal sérstakan varamann fyrir hvern aðalmann í stjórn.

Aðalfundur kýs stjórn til tveggja ára í senn og skal formaður kosinn sérstaklega.

Stjórnin kýs varaformann úr sínum hópi. Í forföllum formanns stýrir varaformaður fundum stjórnar og gegnir formannsstörfum.
Stjórnin getur kosið ritara úr sínum hópi eða falið framkvæmdastjóra ritun fundargerða stjórnar.

Sá sem kjörinn hefur verið aðalmaður í stjórn í þrjú kjörtímabil í röð, þ.e. sex ár, er ekki kjörgengur til stjórnar næstu tvö ár.  Formaður sem kjörinn hefur verið tvö kjörtímabil í röð, þ.e. fjögur ár, er ekki kjörgengur til formennsku næstu tvö árin.

 

5.2.
Kosið skal í fulltrúaráð Eyþings. Í ráðinu sitja 20 fulltrúar kosnir af sveitarstjórnum til tveggja ára í senn. Kjörgengir í fulltrúaráð eru þeir sömu og kjörgengir eru á aðalfundi Eyþings. Aðalmenn í stjórn Eyþings eru sjálfkjörnir í fulltrúaráðið. Formaður stjórnar er jafnframt formaður fulltrúaráðs. Ráðið skiptir að öðru leyti með sér verkum.

Hlutverk fulltrúaráðsins er að vera stjórn til ráðgjafar í veigamiklum málum og að tryggja lýðræðislega aðkomu allra sveitarfélaga á starfssvæði Eyþings.

5.3.
Kjörgengir til stjórnar eru kjörnir sveitarstjórnarmenn aðildarsveitarfélaga og varamenn þeirra, svo og framkvæmdastjórar sveitarfélaga.

5.4.
Aðalfundur velur árlega löggiltan endurskoðanda til að endurskoða ársreikninga.

5.5.
Aðalfundur kýs þriggja manna kjörnefnd, sem jafnframt er kjörbréfanefnd aðalfundarins.  Kjörnefnd skal auglýsa í upphafi aðalfundar eftir ábendingu um kjör til stjórnar, endurskoðenda svo og til annarra trúnaðarstarfa.  Kjörnefnd skal gera tillögur til aðalfundarins um kjör til þeirra trúnaðarstarfa er tiltekin eru í landslögum eða lögum samtakanna og ákveðin eru af aðalfundi.  Fylgi ábendingu meðmæli a.m.k. 10 aðalfundarfulltrúa og geti kjörnefnd ekki gert hana að sinni tillögu, sker aðalfundur úr með persónukjöri.  Tillögur sem fram koma eftir að kjörnefnd hefur lokið störfum og kynnt niðurstöður sínar skulu studdar  af a.m.k. 5 fulltrúum.

5.6.
Stjórn Eyþings fer með yfirstjórn á rekstri samtakanna í samræmi við fjárhagsáætlun og aðrar samþykktir aðalfundar.  Stjórnin leggur fram á aðalfundi endurskoðaða ársreikninga, tillögu til fjárhagsáætlunar og undirbýr önnur mál fyrir aðalfundinn.  Reikningsár Eyþings er almanaksárið.

5.7.

Stjórn Eyþings ræður framkvæmdastjóra sem fer með umboð stjórnar, er forstöðumaður skrifstofu Eyþings, stjórnar henni og ber ábyrgð á daglegum rekstri samtakanna gagnvart stjórn. Framkvæmdastjóri er yfirmaður allra starfsmanna Eyþings og fer með mannaforráð. Framkvæmdastjóri á sæti á aðalfundi með málfrelsi og tillögurétti.

  

VI.  kafli.  Árgjöld.

6.1.
Árgjöld til Eyþings eru ákveðin af aðalfundi með fjárhagsáætlun  hverju sinni.  Árgjaldafjárhæð skal skipt milli sveitarfélaga eftir íbúatölu miðað við 1. desember næstliðins árs.  Stjórnin ákveður fjölda gjalddaga.  Dráttarvextir reiknast af vanskilum.

 

VII.  kafli.  Úrsögn og slit.

 7.1.
Kjósi sveitarfélag að hætta þátttöku í Eyþingi skal tilkynna stjórninni það skriflega eigi síðar  en 6 mánuðum áður en nýtt reikningsár hefst.  Verður úrsögnin þó ekki virk fyrr en við næstu áramót á eftir.

7.2.
Hyggist sveitarfélag segja sig úr Eyþingi skv. gr. 7.1. skal stjórn Eyþings taka saman yfirlit yfir allar eignir og skuldir miðað við úrsagnardag.  Reynist skuldir umfram eignir skal þeim jafnað á sveitarfélögin í samræmi við íbúatölu á sama hátt og um sambandsslit væri að ræða.  Úrsagnarsveitarfélag skal, innan 8 mánaða frá því úrsögn varð virk, gera upp sinn hlut með greiðslu eða á annan þann hátt er stjórn Eyþings samþykkir.  Að öðru leyti gilda ákvæði 84. gr.  sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

7.3.
Samtökin verða ekki lögð niður nema tveir löglega boðaðir fundir samþykki það með 2/3 hlutum atkvæða.  Fundirnir skulu haldnir með a.m.k. tveggja mánaða millibili. Tillaga að félagsslitum skal fylgja fundarboði.  Áður en seinni fundurinn er haldinn skal afstaða aðildarsveitarfélaga til sambandsslita liggja fyrir.  Til þess að slit á sambandinu nái fram að ganga þurfa jafnframt 2/3 hlutar sveitarstjórna aðildarsveitarfélaga að staðfesta þau.

 7.4.
Nú er ákveðið að hætta starfsemi Eyþings og skal þá kjósa því sérstaka skilanefnd, sem kemur í stað stjórnar.  Skilanefnd gerir upp eignir þess og skuldir og slítur formlega rekstri þess. Heimilt er skilanefnd að auglýsa eftir kröfum á hendur sambandinu með opinberri innköllun.  Eftir að kröfur hafa verið greiddar skal afgangi eigna eða eftirstöðvum skulda jafnað á viðkomandi sveitarsjóði í hlutfalli við íbúatölu.  Skilanefnd skal kjörinn á seinni sambandsslitafundi samkvæmt grein 7.3.

 

 VII.  kafli. Lagabreytingar.

    8.1.
Tillögur til lagabreytinga skulu berast stjórn Eyþings a.m.k. þrem vikum fyrir aðalfund.  Tillögur til lagabreytinga skulu sendar út með dagskrá.

 8.2.
Tillaga til lagabreytinga nær fram að ganga ef a.m.k. 2/3 hlutar fundarmanna á löglega boðuðum aðalfundi greiða henni atkvæði.

  

__________________________________

Þannig samþykkt á stofnfundi Eyþings, Hvammstanga 28. ágúst 1992,

með síðari breytingum, síðast 22. september 2018.


 

Fundarsköp aðalfundar EYÞINGS

 

1.
Formaður Eyþings eða annar í umboði hans setur aðalfundinn.  Hann skal stýra kjöri fundarstjóra, varafundarstjóra, fundarritara og varafundarritara úr hópi aðalfundarfulltrúa.  Heimilt er að ráða mann utan fulltrúahópsins til skrifarastarfa.

 2.
Fundarstjóri stjórnar fundi og sér um að fundarstörfin fari fram eftir góðri reglu og almennum venjum um fundarsköp.

 3.
Í upphafi fundar skal kjósa kjörnefnd  skv. grein 5.4.  í lögum samtakana.  Nefndin kannar kjörbréf og leggur fram skrá yfir réttkjörna aðalfundarfulltrúa til staðfestingar á fundinum.  Nefndin leggur fram tillögur um kjör samanber grein 5.4. í lögum.  Komi ekki fram aðrar tillögur en frá kjörnefnd eru þær sjálfkjörnar.

 4.
Aðalfundur kýs sér þær starfsnefndir sem fundurinn telur þörf á hverju sinni.

5.
Afl atkvæða ræður úrslitum mála, nema annað sé ákveðið í lögum Eyþings.  Séu atkvæði jöfn er mál fallið,  en um kosningar ræður hlutkesti.  Mál telst ekki ályktun aðalfundarins nema meira en fjórðungur kjörinna fulltrúa greiði því atkvæði.

  

___________________________________

  

 Þannig samþykkt á stofnfundi Eyþings,

Hvammstanga, 28. ágúst 1992