Um Eyþing

Hvað er Eyþing?

Um Eyþing

Í landinu eru starfandi átta landshlutasamtök sem einkum sinna staðbundnum hagsmunamálum sveitarfélaga og eru pólitískur samráðsvettvangur sveitarstjórna í viðkomandi landshluta. Að auki sinna nokkur samtakanna veigamiklum rekstri samstarfsverkefna.

Landshlutasamtökin eru frjáls samtök og starfa með tilvísun til 97. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir nr. 69/2015.

Eyþing er landshlutasamtök sveitarfélaga á Norðausturlandi og innan Eyþings eru 13 sveitarfélög með liðlega 30.000 íbúa. Sveitafélögin eru Akureyri, Norðurþing, Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Hörgársveit, Svalbarðsstrandarhreppur, Grýtubakkahreppur, Skútustaðahreppur, Tjörneshreppur, Þingeyjarsveit, Svalbarðshreppur og Langanesbyggð. Eyþing var stofnað árið 1992 þegar Fjórðungssamband Norðlendinga var lagt niður.

Hlutverk Eyþings er að vera samráðsvettvangur aðildarsveitarfélaganna og sinna hverjum þeim verkefnum sem sveitarfélögin eða löggjafinn kunna að fela þeim. Markmið samtakanna er að efla samvinnu sveitarfélaganna, gæta hagsmuna þeirra, styrkja byggð og mannlíf á starfssvæðinu öllu, atvinnulega, félagslega og menningarlega.

Markmiðum sínum skulu samtökin ná m.a. með samstarfi við aðrar samstarfsstofnanir sveitarfélaga á starfssvæðinu. Þá starfa samtökin í nánum tengslum við ráðuneyti sveitarstjórnarmála, Samband íslenskra sveitarfélaga og önnur landshlutasamtök sveitarfélaga.