Hvað er sóknaráætlun?

Atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Eyþing undirrituðu í febrúar árið 2015 samning um sóknaráætlun Norðurlands eystra 2015 til 2019. Með samningnum voru sóknaráætlanir landshluta, vaxtarsamninga og menningarsamninga sameinað í einn farveg. Heildarupphæð samninganna á landinu öllu var ríflega 550 milljónir króna við gerð samninganna 2015. Fjárhæðir ráðast af fjárlögum hvers árs.

Markmið sóknaráætlana landshluta er að ráðstöfun þeirra fjármuna sem varið er til verkefna í einstökum landshlutum á sviði atvinnu-, byggða- og menningarmála byggi á svæðisbundnum áherslum og markmiðum sem fram koma í sóknaráætlun landshlutans. Markmið samningsins er að stuðla að jákvæðri samfélagsþróun, treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni landshlutans og landsins alls. Markmiðið er jafnframt að einfalda samskipti ríkis og sveitarfélaga og tryggja gagnsæi við úthlutun og umsýslu opinberra fjármuna.

Til að vinna að markmiðum landshlutans mun Eyþing:

  • Vinna sóknaráætlun Norðurlands eystra þar sem staða landshlutans er greind og markmið sett til lengri og skemmri tíma.
  • Setja upp uppbyggingarsjóð sem styður menningar-, atvinnu- og nýsköpunarverkefni í samræmi við markmið sóknaráætlunar landshlutans.
  • Skilgreina áhersluverkefni fyrir samningstímabilið sem fram koma í sóknaráætluninni og endurspegla markmið hennar.

 Forsaga sóknaráætlunar:

Árið 2009 efndi þáverandi ríkisstjórn til víðtæks samráðs undir yfirskriftinni Sóknaráætlun 20/20 undir forystu forsætisráðuneytisins.

Við undirbúning Sóknaráætlunar 20/20 fyrir Ísland var boðað til þjóðfunda í landshlutunum átta þar sem íbúar, hagsmunaaðilar og fulltrúar sveitarstjórna á svæðunum tóku þátt. Slíkur fundur var haldinn í febrúar 2010 á vegum Eyþings með þátttöku um 120 manns. Á fundunum var leitað eftir sérstöðu svæðana að mati heimamanna. Nánar tiltekið, hvar leyndust tækifæri í atvinnumálum, menntamálum og opinberri þjónustu sem önnur landssvæði ættu erfitt með að líkja eftir. Gengið var út frá því að á hverjum fundi fyrir sig kæmu fram hugmyndir og tillögur tengdar sérstöðu sem nýtast mættu í Sóknaráætlun. Slík áætlun drægi fram helstu möguleika þess til sóknar í atvinnumálum, menntamálum og opinberri þjónustu. Fulltrúar frá landshlutasamtökum sveitarfélaga á hverju svæði fóru að því loknu yfir útkomuna og skiluðu skýrslum til stýrihóps Sóknaráætlunar á vordögum 2010.

Niðurstaða þessa víðtæka samráðs varð Ísland 2020, stefnumörkun um ákveðna framtíðarsýn um öflugra atvinnulíf og samfélag. Ísland 2020 var samþykkt af ríkisstjórn í ársbyrjun 2011. Stefnumörkunin endurspeglaðist í 20 hlutlægum markmiðum fyrir Ísland og 30 verkefnum til að vinna að þeim markmiðum. Sóknaráætlanir fyrir alla landshluta til eflingar atvinnulífs og lífsgæða til framtíðar var eitt þeirra verkefna. Markmiðið var að kalla fram sameiginlega framtíðarsýn landshluta og að samþætta áætlanir í samgöngumálum, fjarskiptamálum, ferðamálum og byggðaáætlanir auk áætlana um eflingu sveitarstjórnarstigsins og ýmsa vaxtarsamninga og aðra opinbera stefnumótun og framkvæmdaáætlanir.

Niðurstöður af þjóðfundum í landshlutum leiddu það í ljós að svæðin átta eiga mikið meira sameiginlegt heldur en greinir þau í sundur. Í rauninni reyndist erfitt að finna sérstöðu fyrir hvert svæði sem ekki var sameiginleg með a.m.k. nokkrum öðrum. Það kom í ljós að flest svæðin mátu sérstöðu sína felast í áherslu á ferðaþjónustu og uppbyggingu rannsóknar- og þekkingarsetra. Þessar áherslur hafa einnig komið fram í gegnum árin í svonefndum vaxtarsamningum um uppbyggingu atvinnulífs sem iðnaðarráðuneytið hefur gert við fulltrúa landshlutanna og einkaaðila.

Fyrsta skrefið í að styrkja verkefni á grunni markmiða Íslands 2020 var stigið árið 2011 þegar 11 verkefni, þar af tvö af þeim verkefnum sem Eyþing lagði til, voru samþykkt á fjárlög 2012. Verkefni Eyþings voru Norðurslóðamiðstöð Íslands og fjarskipti og gagnaflutningar. Norðurslóðanet Íslands var stofnað í febrúar 2013. En ýmis vandkvæði vegna samkeppnissjónarmiða hafa orðið til þess að ekki hefur orðið af verkefni um fjarskipti og gagnaflutninga.

Á grundvelli stefnumótunar og markmiða Íslands 2020 var gerður samningur um framkvæmd sóknaráætlunar Eyþings árið 2013. Alls veitti ríkið 400 mkr. til sóknaráætlana og í hlut Eyþings kom 50,6 mkr. Eyþing forgangsraðaði fjármunum til sex verkefna í þeim samningi. 

 Árið 2014 var gerður samningur um framlög til byggðaþróunar á Norðurlandi eystra en þeim fjármunum var varið til verkefna sem byggðu á sóknaráætlun landshlutans fyrir árið 2013 sem og vaxtarsamningum Eyjafjarðar og Norðausturlands 2010-2013 með hliðsjón af áherslum sóknaráætlunar. Aðeins 100 mkr. var varið til svokallaðra sóknaráætlunarverkefna og þar af komu 12,3 mkr. í hlut Eyþings.

Í febrúar árið 2015 var undirritaður samningur um sóknaráætlun Norðurlands eystra 2015 til 2019 sem fjallað var um hér að ofan.