Vettvangur ungs fólks á Norðurlandi eystra

Þátttakendur á Húsavík
Þátttakendur á Húsavík

Verkefnið Vettvangur ungs fólks á Norðurlandi eystra hlaut styrk úr sóknaráætlun Norðurlands eystra fyrir árið 2019 og miðar að því að skapa vettvang fyrir ungt fólk á Eyþingssvæðinu til að ræða sameiginleg hagsmunamál og kynnast lífi hvers annars. Markmiðið er að skapa samheldni, tengslanet og umræður og valdefla ungt fólk á svæðinu. Með þessu verkefni er komið tækifæri fyrir ungmenni til að eiga samstarf við sveitarfélögin á svæðinu og vekja athygli á þeirra málefnum.

Í frétt sem birtist á heimasíðu Akureyrarbæjar segir: „Hver eru stærstu vandamál heimsins, landsins og sveitarfélagsins? Og hvernig er hægt að nota heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna til að efla sína heimabyggð? Þetta eru dæmi um spurningar sem ungmenni og starfsfólk ellefu sveitarfélaga ræddi á fyrsta viðburðinum undir yfirskriftinni „Ungt fólk á Norðurlandi eystra“.

Mikilvægar og valdeflandi umræður

Á dögunum var haldinn fyrsti sameiginlegi viðburðurinn á Húsavík og þangað mættu fjórir fulltrúar frá hverju sveitarfélagi, þrjú ungmenni og einn starfsmaður. Þátttakendur voru tæplega 40 talsins og var kynjahlutfallið jafnt. Ákveðið var að þessi fyrsti viðburður yrði með þjóðfundarsniði og með áherslu á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Áhugaverðar umræður sköpuðust á fundinum um samfélög, ungt fólk og heimsmarkmiðin en hver hópur kom svo með hugmynd að næsta viðburði.

Landsmót SSNE - skemmtun og fræðsla

Tilllagan sem var valin ber heitið Landsmót SSNE og felur í sér helgi þar sem ungmenni koma saman, gista í skóla og gera skemmtilega hluti eins að bjóða upp á pizzaveislu, ísferð, bíó eða sund en vinna jafnframt verkefni og fræðast enn frekar um heimsmarkmiðin. Meðal verkefna á dagskránni er matreiðslukennsla úr íslensku hráefni, nýsköpunarleikir í tengslum við aðgerðir í loftslagsmálum og fræðsla um hvert ruslið okkar fer. Einnig var lagt til að hafa fræðslu um snjalltækjanotkun sem snýr að heimsmarkmiði um heilsu og vellíðan og þá vilja ungmenni planta trjám saman og jafnvel heimsækja fyrirtæki og fræðast um hvernig þau vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Landsmótið, sem á að vera skemmtilegt og skapandi, verður haldið á vordögum.“

Tekin hefur verið saman skýrsla um framvindu verkefnisins sem má lesa í heild sinni hér.