Vaðlaheiðargöng

Stjórn Eyþings hefur samþykkt eftirfarandi vegna umræðu og áforma um framkvæmdir við Vaðlaheiðagöng:
Stjórn Eyþings fagnar áformum um að ráðast í gerð Vaðlaheiðarganga og hvetur samgönguráðherra til að standa fast við þau áform.
Í minnisblaði með nýgerðum stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins eru listaðar upp ýmsar samgönguframkvæmdir sem mögulegt væri að ráðast í sem einkaframkvæmd, m.a. með fjármögnun frá lífeyrissjóðunum. Tilgangur þessara verkefna er m.a. að skapa nauðsynlega innspýtingu í atvinnulíf þjóðarinnar. Alls eru talin upp samgönguverkefni upp á 75 milljarða. Þar af eru Vaðlaheiðargöng upp á 7 milljarða, en önnur tilgreind verkefni eru á SV-horni landsins.
Margháttuð rök fyrir Vaðlaheiðargöngum hafa ítrekað verið tíunduð. Það er til marks um mikilvægi þessarar framkvæmdar að snemma árs 2003 stofnuðu sveitarfélögin í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, ásamt nokkrum fyrirtækjum, félagið Greiða leið ehf. til að vinna að undirbúningi hennar. Fyrir tilstilli félagsins er nú rannsóknum, skipulagsvinnu og öðrum undirbúningi lokið. Vegna þessarar vinnu heimaaðila er nú hægt að ráðast í framkvæmdir með skömmum fyrirvara.
Stjórn Eyþings harmar þá ómálefnalegu umræðu sem átt hefur sér stað um Vaðlaheiðargöng og ákvörðun samgönguráðherra að undanförnu. Það er rangt sem haldið hefur verið fram að ákvörðun um gerð Vaðlaheiðarganga muni tefja framgang annarra mikilvægra samgönguframkvæmda. Það er einnig rangt að ákvörðun samgönguráðherra sé ekki tekin á faglegum forsendum. Rétt er einnig að halda því sérstaklega til haga að gert er ráð fyrir að veggjöld standi undir að lágmarki helmingi kostnaðar við gerð Vaðlaheiðarganga. Það gerir framkvæmdina enn fýsilegra en ella við þær efnahagsaðstæður sem við búum við í dag.
Stjórn Eyþings hefur fullan skilning á að víða, ekki síst á SV-horni landsins, er beðið með óþreyju eftir mikilvægum samgöngubótum. Stjórnin væntir jákvæðra viðhorfa gagnvart þeirri mikilvægu framkvæmd sem Vaðlaheiðargöng eru í augum íbúa á Norðausturlandi.