Styttist í útboð Vaðlaheiðarganga

Senn líður að því að Vaðlaheiðargöng verði boðin út. Stjórn Vaðlaheiðarganga samþykkti á fundi sínum 14. júlí að gefa öllum þeim sex aðilum sem skiluðu inn forvalsgögnum kost á að taka þátt í útboði vegna Vaðlaheiðarganga. Útboðsgögnin verða afhent á næstu dögum þegar framkvæmdaleyfi hafa borist frá Svalbarðsstrandarhreppi og Þingeyjarsveit. Einnig er gengið út frá því að samningur við fjármálaráðuneytið um fjármögnun hafi þá verið undirritaður en samkomulag um fjármögnunarskilmála var samþykkt á fyrrnefndum fundi. Þá verður boðin út sér bygging brúar til að aðskilja efnisflutninga og umferð Eyjafjarðarmegin. Ætlunin er að ráðast í þá framkvæmd nú í haust til að flýta fyrir og auðvelda undirbúning á framkvæmdasvæðinu.