Sóknaráætlanir landshluta – áherslur og úthlutanir 2016

Birt hefur verið greinargerð stýrihóps Stjórnarráðsins um byggðamál þar sem gert er grein fyrir ráðstöfun fjárframlaga til sóknaráætlunarsamninga og framkvæmd þeirra árið 2016. Auk þess er gerður samanburður milli áranna 2015 og 2016, sem og samanburður milli landshluta. Upplýsingar í greinargerðinni byggjast að mestu á árlegum greinargerðum landshlutasamtaka sveitarfélaga til stýrihópsins. Hér að neðan er samantekt frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

 

Á síðasta ári bárust þeim sjö uppbyggingarsjóðum sem starfa á landinu samtals 1.063 umsóknir. Af þeim voru 630 umsóknir samþykktar eða 59% og nam heildarfjárhæð styrkja tæpum 429 m.kr. Þá voru heildarframlög til áhersluverkefna samtals 307 m.kr. vegna 54 verkefna.

Áhersluverkefni eru samningsbundin verkefni sem hafa beina skírskotun til sóknaráætlunar og samráðsvettvangs viðkomandi landshlutar. Verkefnum skal í síðasta lagi lokið fyrir árslok 2019 og spanna vítt svið eða allt frá ráðgjafar- og átaksverkefnum í menningu og markaðsmálum að umfangsmiklum nýsköpunarverkefnum. Þá skulu áhersluverkefni hljóta samþykki stjórnar landshlutasamtaka sveitarfélaga og staðfesting stýrihóps stjórnarráðsins um byggðamál.

Lægsta framlag til einstakra áhersluverkefna var 300 þ.kr. en það hæsta 22,6 m.kr. Að jafnaði námu framlög hins vegar 5,7 m.kr. til hvers verkefnis eða samtals 307 m.kr. til 54 verkefna, eins og áður segir. Af þessum 307 m.kr. voru 76 m.kr. mótframlag heimamanna. Er þá ótalið vinnuframlag þeirra til umræddra verkefna.

Yfirlit yfir helstu áhersluverkefni

Áhersluverkefni voru flest á Suðurlandi eða 16 talsins og fæst á Norðurlandi eystra, Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu eða þrjú i hverjum þessara landshluta. Helstu áhersluverkefni voru á árinu 2016 eftirtalin:

Borgarlína og Location Reykjavík Capital Area (Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu), Þjónusta og ráðgjöf í menningarmálum, Fjölgun iðnnema og Efling menntunar í ferðaþjónustu og matvælaframleiðslu (Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi), Visit Westfjords, InWest og Menningarfulltrúi (Fjórðungssamband Vestfjarða), Svæðisleiðsögn á Norðurlandi Vestra, Kortlagning skapandi greina og Listaskóli unga fólksins (Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra), Samstarf um fjölnýtingu orkuauðlinda á Norðurlandi eystra og Þróun og ráðgjöf í menningarmálum (Eyþing), Menningarstarf á Austurlandi og Svæðisskipulag fyrir Austurland (Samtök sveitarfélaga á Austurlandi), Skógarvinnsla, Starfamessa 2017 og Nýsköpun sem nám í grunnskólum (Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi) og Sameiginleg markaðsáætlun fyrir Suðurnes, Samstarf í ferðaþjónustu á Suðurnesjum og Tengsl atvinnulífs og skóla (Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum).

Úthlutanir uppbyggingarsjóða

Ef litið er til uppbyggingarsjóðanna sjö, þá bárust að meðaltali 152 umsóknir til hvers sjóðs, sem veitti að jafnaði 90 styrki á síðasta ári. Á Suðurlandi bárust flestar umsóknir eða 223 og þar voru einnig veittir flestir styrkir eða 139. 

Fæstar umsóknir bárust á hinn bóginn Suðurnesjum eða 63 og styrkir voru þar einnig fæstir eða 35 talsins. Vestfirðingar og Suðurnesjamenn sækja um aðeins hærri styrki en gengur og gerist í öðrum landshlutum, en styrkumsóknir í þessum landshlutum nema að jafnaði 2 m.kr. en 1,4 m.kr. í öðrum landshlutum. Þá sker Vesturland sig úr hvað árangurshlutfall styrkumsókna varðar, en 71% umsókna hljóta þar náð fyrir augum úthlutunarnefndar. Lægst er þetta hlutfall á Norðurlandi eystra eða 49%.

Á heildina litið var sótt um rúmlega 1,5 ma.kr. Veittir styrkir voru liðlega þriðungur af þeirri upphæð eða 429 m.kr. eins og áður segir. Af 630 styrkveitingum voru 324 styrkir, eða ríflega þriðjungur, undir 500 þ.kr. Styrkir á bilinu 500 þ.kr.-2,5 m.kr. voru 295 eða 74% allra styrkveitinga. Styrkir hærri en 2,5 m.kr. voru 10 talsins eða 1,6% af heildinni.

Skapast munu 385 störf á verktíma umsókna eða að meðaltali 0,61 ársverk á hverja styrkveitingu. Tæplega 55% þessara starfa gagnast báðum kynjum jafnt, 13% þeirra gagnast fleiri konum en körlum og 10% fleiri körlum en konum, svo að dæmi sé nefnd um kyngreind áhrif þessara starfa og sagt er nánar frá í greinargerð stýrihópsins.

Þá eru langflestar umsóknir í menningar- íþrótta- og tómstundastarfi skv. niðurstöðum atvinnugreinaflokkunar, eða 590 af þeim 1.062 umsóknum sem bárust í heildina. Framleiðsla kemur í öðru sæti með 111 umsóknir og Upplýsingar og fjarskipti í því þriðja með 102 umsóknir alls. Þessi greining endurspeglast síðan í strykúthlutunum, en þar féll 401 styrkveiting af 630 undir Menningar-, íþrótta- og tómstundastarfsemi, 61 undir Framleiðslu og 51 undir Upplýsingar og fjarskipti.

Í greinargerð stýrihópsins má svo sjá áhugaverð dæmi um verkefni hjá öllum sjö uppbyggingarsjóðum landsins.

Heildarfjárhæðir 2016 í samanburði við 2015

Þess má svo geta að framlög til áhersluverkefna sóknaráætlana jukust um tæpa 71 m.kr. á milli áranna 2016 og 2015. Á sama tíma drógust framlög til uppbyggingarsjóða saman um tæpar 13 m.kr. og stofn- og rekstrarstyrkir drógust einnig saman eða um 14,5 m.kr. Á milli þessara ára jukust viðaukasamningar á hinn bóginn um 39,2 m.kr. og sömu sögu er að segja um umsýslu sjóðanna, sem jókst úr 47 m.k.r í ríflega 52 m.kr. Óráðstafað fé jókst einnig eða um 22 m.kr. Fór úr 26,5 m.kr. í 48,5 m.kr.

Á heildina litið hækka fjárframlög vegna sóknaráætlana á mili ára um tæpar 110 m.kr. eða úr 801 m.kr. í 911 m.kr. og má að langmestu leyti rekja þessa hækkun til áhersluverkefna, sem jukust á milli ára eins og áður segir um 71 m.kr.

Sóknaráætlanir eru fjármagnaðar með fjárframlögum frá ríki og sveitarfélögum.

Hér má nálgast greinargerðina í heild sinni