Samfélagsáhrif Vaðlaheiðarganga

“Eyjafjörður og Þingeyjarsýslur munu án nokkurs vafa hagnast á göngunum í jafnt efnahags- sem og samfélagslegu tilliti. Styrking Akureyrar sem þjónustukjarna fyrir Norðurland eykst til muna og má segja að Húsavík verði komin í svipaða stöðu og staðir eins og Selfoss og Akranes eru gagnvart Reykjavík,” segir í niðurstöðum skýrslu Haraldar Reinhardssonar um samfélagsáhrif Vaðlaheiðarganga.
Haraldur stundar nám B.S. nám í samfélags- og hagþróunarfræðum við Háskólann á Akureyri og hafði frumkvæði að þessu verkefni og vann að því síðastliðið sumar.  Umsjón með verkefninu hafði Þekkingasetur Þingeyinga og var lokaskýrslan styrkt af Greiðri leið ehf.og fleirum. Í niðurstöðum skýrslunnar kemur einnig fram að sem jákveð áhrif megi nefna lækkun rekstrarkostnaðar bifreiða, sér í lagi eldsneytiskostnaðar. Öryggi aukist verulega miðað við það sem nú er með veginum um Víkurskarð, slysatíðni verði minni og samskipti meiri milli Eyjafjarðarsvæðisins og byggðarlaga austan Vaðlaheiðar. Í skýrslunni kemur einnig fram að litlu muni að hægt sé að skilgreina Akureyri og Húsavík sem sama atvinnu- og búsvæði en þar er miðað við 45 mínútna ferðareglu milli staða samkvæmt viðmiðun Evrópusambandsins. Hægt er að lesa skýrsluna í heild sinni með því að smella hér.