Norðausturkjördæmi eða Norðausturríki?

Starfsemi ríkisins í Norðausturkjördæmi  - ríkisútgjöld og tekjur, er viðviðfangsefni skýrslu sem kynnt var á málþingi sem haldið var á Akureyri 21. nóvember síðastliðinn. Skýrsluhöfundar eru þeir Þóroddur Bjarnason, prófessor og Jón Þorvaldur Heiðarsson, lektor. Í niðurstöðum skýrslunnar segir m.a.:„ Tekjur ríkisins í kjördæminu voru áætlaðar 52,5 milljarðar á árinu 2011. Tekjur Norðurlands eystra voru 6 milljörðum undir meðaltali landsins en tekjur Austurlands 0,5 milljörðum yfir því meðaltali. Hvað Norðurland eystra varðar munar hér mest um lægri tekjuskatt, trygginga- og atvinnutryggingagjöld og fjármagnstekjuskatt. Ef kjördæmið væri sjálfstætt ríki sem hvorki ætti tilkall til eigna íslenska ríkisins utan kjördæmamarka né bæri ábyrgð á skuldum íslenska ríkisins væri fjárhagur þess í þokkalegu jafnvægi. Til samanburðar var -7,9% halli af rekstri íslenska ríkisins eftir vaxtagreiðslur skv. fjárlögum 2011.“

Skýrsluhöfundar fjalla um skiptingu útgjalda ríkisins í kjördæminu og komast að þeirri niðurstöðu að þjónusta við íbúa sé minni af hendi ríkisins en annars staðar á landinu. Það á hins vegar ekki við um sveitarfélögin.
„Þegar allt er talið eru útgjöld ríkisins í kjördæminu því aðeins 484 Mkr eða -1% undir gjaldahlutdeild svæðisins. Íbúar kjördæmisins njóta hins vegar minni þjónustu ríksins sem nemur 96 þúsund krónum á hvern íbúa á ári eða um 384 þúsund krónum á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Á hinn bóginn leggur ríkið til svipaða upphæð til þess að annars vegar tryggja að þjónusta sveitarfélaga í kjördæminu sé sambærileg því sem gerist annars staðar og hins vegar til að styðja við landbúnað í kjördæminu. Fyrir almennan íbúa kjördæmisins má því gera ráð fyrir því að þjónusta sveitarfélaga sé sambærileg því sem gerist annars staðar á landinu en þjónusta ríkisins um -14% minni en meðaltal landsins,“ segir í skýrslunni.

Lesa má samantekt skýrslunnar með því að smella hér.
Heildarútgáfa skýrslunnar er hér.