Menningarsamningar undirritaðir

Helstu atriði:

Rúmar 250 m.kr. á ári til menningarstarfsemi og menningartengdrar ferðaþjónustu á landsbyggðinni.   Eykur aðgengi íbúa landsbyggðarinnar að menningarstarfsemi. Stuðlar að fjölgun starfa og fjölbreyttara atvinnulífi.


Menningarsamningar, samningar um menningarmál og menningartengda ferðaþjónstu, til þriggja ára á milli ríkisins og sambanda sveitarfélaga um allt land voru undirritaðir í dag. Samningarnir fela í sér að árlega verður 250,7 m.kr. varið til menningarmála og menningartengdrar ferðaþjónustu um allt land. Þar með er stuðningi ríkisins beint í einn farveg í því skyni að efla slíkt starf um landið allt og gera það sýnilegt.


Mennta- og menningarmálaráðherra og iðnaðarráðherra undirrituðu samningana fyrir hönd ríkisins. Samningarnir, sem eru sjö talsins, eru gerðir við Samband sveitafélaga á Norðurlandi Eystra, Austurlandi, Suðurlandi, Suðurnesjum, Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra.


Markmið menningarsamninganna er að efla samstarf á sviði menningarmála á hverju svæði auk þess að stuðla að nýsköpun, fjölbreytni og fjölgun atvinnutækifæra á sviði menningar, lista og menningartengdar ferðaþjónustu. Á hverju svæði starfa menningarráð sem eru vettvangur samtarfs sveitarfélaganna og hafa það hlutverk að standa fyrir þróunarstarfi og úthluta fé til verkefna á sviði menningar og menningartengdrar ferðaþjónustu.


Samtals nemur árlegt fjárframlag til samninganna tæpum 250,7 m.kr. Þar af er hlutur ríkisins 179,2 m.kr. eða 60% af heildarframlagi. Hann skiptist þannig að mennta- og menningarmálaráðuneyti leggur til 139,2 m.kr. og iðnaðarráðuneyti 40 m.kr. Sveitarfélögin leggja til 40% af heildinni eða samtals 71,6 m.kr. Við skiptingu fjárframlaga til hvers svæðis var tekið tillit til stærðar og vegalengda innan þess, fjölda íbúa, atvinnuástands og fjarlægðar frá höfuðborgarsvæðinu. Heildarframlag til Austurlands nemur árlega 44,5 m.kr., til Norðurlands eystra og Suðurlands 37,2 m.kr., til Vestfjarða 34,7 m.kr. og til Norðurlands vestra, Vesturlands og Suðurnesja 32,3 m.kr.


Fyrsti menningarsamningurinn var gerður við Austurland árið 2001 en frá árinu 2007 hafa verið í gildi menningarsamningar við alla landshluta utan höfuðborgarsvæðisins. Hefur árangur samninganna verið góður. Hafa þeir stuðlað að fjölgun launaðra starfa við menningu og menningartengda ferðaþjónstu, afleidd störf hafa orðið til, menning hefur orðið aðgengilegri fyrir almenning og samstarf á milli landshluta á sviði menningarmála hefur aukist.
 
Fréttatilkynning frá mennta- og menningarmálaráðuneyti og iðnaðarráðuneyti.