Heimsókn menningarfulltrúa landshlutanna á Norðurland vestra

Dagana 14. og 15. maí sl. tók Vigdís Rún Jónsdóttir, menningarfulltrúi Eyþings, þátt í árlegum vorfundi menningarfulltrúa landshlutanna á Norðurlandi vestra. Ásamt menningarfulltrúunum voru verkefnastjórar Uppbyggingarsjóða Norðurlands vestra, Austurlands og Suðurlands. 

Fyrri daginn var byrjað á að heimsækja Kakalaskála á Kringlumýri í Blönduhlíð. Kakalskáli var opnaður af Sigurði Hansen árið 2012, en þar má sjá sýningu um sögu Þórðar Kakala. Skammt sunnan við bæinn er Haugsnes þar sem Haugsnesbardagi fór fram árið 1244, þar hefur Sigurður komið upp útilistaverkinu Grjóther. Í verkinu hefur Sigurður still upp jafnmörgun grjótum og þeim mönnum sem tóku þátt í bardaganum 1320 og sett krossmark á rúmlega 60 steina sem táknar þá er féllu í bardaganum.  

Eftir fróðlega sögustund með Sigurði Hansen var ekið til Sauðárkróks þar sem húsakynni sýndarveruleikasýningarinnar1238 – The Battle of Iceland voru skoðuð og einn hluti sýningarinnar prufukeyrður. 1238 er upplifunar- og sögusýning sem tileinkuð verður helstu stóratburðum Sturlungaaldarinnar í Skagafirði. Sýning segir söguna í gegnum nýjustu tækni og sýndarveruleika og gert er ráð fyrir að hún opni í júní 2019.

Ekki var hægt að yfirgefa Sauðárkrók án þess að heimsækja Verzlun Haraldar Júlíussonar, en hún var stofnuð árið 1919 og fagnar því 100 ára afmæli sínu í ár. Bjarni Haraldsson verslunareigandi stóð vaktina þegar menningarfulltrúarnir litu inn en hann hefur unnið innanbúðar ásamt föður sínum frá 1959. Í versluninni er hægt að kaupa ýmsan varning t.a.m. tóbaksklúta og gúmmískó sem ónefndir menningarfulltrúar fjárfestu í. Frá Sauðárkróki var brunað yfir á Skagaströnd og litið inn í Spákonuhof þar sem sögu Þórdísar spákonu, fyrsta nafngreinda íbúa Skagastrandar sem var uppi á síðari hluta 10. aldar, voru gerð skil. Dagurinn endaði svo á heimsókn í Nes listamiðstöð sem er staðsett í gömlu frystihúsi á Skagaströnd. Listamiðstöðin er alþjóðleg miðstöð með gestavinnustofum fyrir starfandi listamenn á öllum sviðum lista og býður upp á opið hús fyrir almenning einu sinni í mánuði. Eftir langan og strangan menningarleiðangur um Skagafjörðinn bauð SSNV gestum upp á kvöldverð í Bjarmanesi-húsinu við hafið

Seinni dagurinn hófst á dýrindis morgunverði á heimili Ingibergs Guðmundssonar, menningarfulltrúa SSNV, og eftir það var Vörusmiðjan BioPol heimsótt. Vörusmiðjan er vottað vinnslurými fyrir smáframleiðendur sem hentar til þróunar, nýsköpunar og framleiðslu á náttúrurlegum mat- og heilsuvörum. 

Restina af deginum funduðu menningarfulltrúarnir og verkefnastjórarnir um ýmiss sameiginleg málefni og báru saman bækur sínar. Meðal umræðuefna á fundinum var sóknaráætlun landshlutanna 2015-2019, en þar kynnti Hólmfríður Sveinsdóttir frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu (í gegnum skype) nýútkomið mat á framkvæmd sóknaráætlana landshluta 2015-2019 og stöðuna í samningagerðinni vegna nýrrar sóknaráætlunar fyrir 2020-2024. Þess má til gamans geta að menningarhluti sóknaráætlunarinnar 2015-2019 kom best út úr könnuninni. Auk sóknaráætlunar upplýsti Hólmfríður fundargesti um stöðu umsóknarkerfisins vegna Uppbyggingarsjóðs (sem er enn ólokið) og taldi að þeirri vinnu yrði lokið á næstu dögum. Hrafnkell Guðnason, verkefnastjóri á Suðurlandi kynnti undirbúning þeirra vegna nýrrar sóknaráætlunar 2020-2024. Katrín Harðardóttir frá Markaðsstofu Norðurlands kynnti verkefnið Arctic Coast Way/Norðurstrandaleið (í gegnum skype) og Sólveig Olga Sigurðardóttir, atvinnuráðgjafi hjá SSNV ræddi um Heimsmarkmiðin í tengslum við menningu. Jafnframt var rætt um menningar- og safnastefnur, áhersluverkefni landshlutanna og reynslu af 3ja ára samningum innan Uppbyggingarsjóðs.