Fyrsti græni leigusamningurinn á Akureyri í gamla KEA húsinu

Leigutakar og Reitir munu undirrita viljayfirlýsingu um græna leigu fimmtudaginn 5. júní kl. 15:30 í Hafnarstræti 91. Græn leiga er samstarf Reita og viðskiptavinar um að starfrækja húsnæði með vistvænum hætti. Húsnæðið verður þá skilgreint sem Grænn Reitur.

  • Grænir leigusamningar hafa færst í vöxt erlendis með vaxandi áherslu á umhverfismál. Græn leiga byggist á samkomulagi milli eiganda húsnæðis og leigutaka þar sem báðir aðilar skuldbinda sig til að reka húsnæðið með vistvænum hætti. Græn leiga tekur m.a. til endurvinnslu og sorpmála, innkaupa á rekstrar- og byggingarvörum og notkunar rafmagns og hitaveitu.
  • Við endurnýjun hússins var leitast við að nýta sem mest af þeim byggingarefnum sem voru heil en við val á nýjum efnum var leitast við að gera vellíðan starfsfólks hátt undir höfði m.a. með umhverfisvænum teppum sem bæta hljóðvist og draga úr ryki í lofti.
  • Vistvænar áherslur fyrirtækjanna felast m.a. í því að allt sorp er flokkað og lögð áhersla á að halda pappírsnotkun í lágmarki. Fyrirtækin hvetja til vistvæns og heilsusamlegs ferðamáta þar sem hjólastandar eru við húsið auk sturtuaðstöðu fyrir starfsmenn.
  • Reitir hafa markað stefnu um að vera leiðandi í mótun umhverfisvitundar í íslensku atvinnulífi. Reitir hafa mikla reynslu í vistvænum fasteignarekstri og er markmið grænna leigusamninga að miðla þeirri reynslu til viðskiptavina og hvetja þá til að gera vistvænar breytingar í rekstri húsnæðis til hagsbóta fyrir þá og fyrir umhverfið.
  • Reitir leggja áherslu á að varðveita þann menningarauð sem felst í eldri byggingum, þar fara áherslur Reita, Ferðamálastofu, Eyþings, Vaðlaheiðarganga, Menningarráðs Eyþings og Markaðsstofu Norðurlands saman. Samhliða endurnýjun fjórðu hæðarinnar var sett lyfta í húsið og gamlar myndir frá Akureyri hengdar í stigagang.

Markaðsstofa Norðurlands, Eyþing, Vaðlaheiðargöng og Ferðamálastofa hafa flutt starfsstöðvar sínar saman í sögufrægt hús í miðbæ Akureyrar. Tilgangurinn er að efla samstarf fyrirtækjanna og bæta aðgengi þeirra sem nýta sér þjónustu okkar. Húsnæðið sem er nýuppgert og hýsti áður skrifstofur Kaupfélags Eyfirðinga er í eigu Reita.