Fjarskiptamál og starfsumhverfi sveitarstjórnarmanna til umfjöllunar á aðalfundi

Aðalfundur Eyþings var haldinn í Valsárskóla á Svalbarðsströnd 22. og 23. september síðastliðinn. Fundinn sátu 32 fulltrúar allra sveitarfélaganna 14 á Eyþingssvæðinu en auk þess sóttu fjölmargir gestir fundinn, þar á meðal allir þingmenn Norðausturkjördæmis, utan Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, sem stödd var í Bandaríkjunum. Á fyrri degi aðalfundarins voru tvö umfjöllunarefni á dagskrá. Annars vegar fjölluðu þrír framsögumenn um starfsumhverfi sveitarstjórnarmanna, þau Trausti Fannar Valsson, lögfræðingur, Guðmundur Heiðar Frímannsson, heimspekingur og deildarforseti við HA og Guðný Sverrisdóttur, sveitarstjóri Grýtubakkahrepps. Hins vegar fjölluðu þeir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar og Jón Eðvald Malmquist, lögfræðingur samgönguráðuneytisins, um fjarskiptamál, þ.e. fjarskiptaáætlun og verkefni fjarskiptasjóðs. Spunnust töluverðar umræður um bæði þessi umfjöllunarefni.
Auk þess ávörpuðu gestir fundinn og flutti Stefanía Traustadóttir, starfsmaður í félagsmálaráðuneytinu, kveðju félagsmálaráðherra og Halldór Blöndal, alþingismaður og forseti Alþingis, flutti kveðju þingmanna kjördæmisins.
Á síðari degi þingsins voru afgreiddar fjölmargar ályktanir fjögurra nefnda þingsins. Ályktanir má lesa í heild sinni á forsíðu heimasíðunnar. Meðal mála sem fundurinn ályktaði um er jafnræði í skattlagningu þar sem lögð er áhersla á mikilvægi þess að sveitarfélögum sé tryggð sanngjörn og eðlileg hlutdeild í skatttekjum og þeim þannig gert kleift að sinna því mikilvæga hlutverki sem þeim er falið að lögum. “Það er augljóst réttlætismál, jafnt fyrir sveitarfélög og íbúa, að allir skattgreiðendur leggi sitt af mörkum til reksturs síns sveitarfélags, hvort sem tekjur þeirra eru launatekjur eða fjármagnstekjur,” segir í ályktuninni.
Fjallað er í ályktunum fundarins um húsnæðismál og hvatt til að Íbúðalánasjóður starfi áfram og tryggi ásættanlega fjármögnun til húsnæðiskaupa á landsbyggðinni. Einnig er fagnað breytingu á reglugerð um Varasjóð húsnæðismála og því aukna fjármagni til sjóðsins sem af henni leiði fyrir árin 2005-2007. Í ályktunum um samgöngumál er lögð áhersla á lengingu Akureyrarflugvallar sem forgangsmáls við næstu endurskoðunar samgönguáætlunar. Lenging flugvallarins sé forsenda fyrir áætlunar- og fraktflugi frá Akureyri til annarra landa og atvinnulífi á Norðurlandi sé ómetanlegt að eiga kost á beinu millilandaflugi frá Akureyri. Lögð er áhersla á að þyrlubjörgunarsveit sé staðsett á Akureyri. Þá ítrekaði Eyþing enn þá skoðun sveitarfélaganna á svæðinu að miðstöð innanlandsflugs skuli áram staðsett í Reykjavík. Fundurinn fagnaði undirbúningsvinnu vegna Vaðlaheiðarganga og að framkvæmdir við Héðinsfjarðargöng skuli nú hafnar. Hins vegar er harðlega mótmælt ítrekuðum drætti á uppbyggingu vegar um Hófaskarð en þeim vegi er ætlað að koma í stað vegar um Öxarfjarðarheiði.
Fundirinn krefst þegar í stað úrbóta á óviðandi ástandi sem víða ríki enn í fjarskiptamálum á landsbyggðinni.
Aðalfundur Eyþings ítrekaði áskorun sína um að teknar verði upp viðræður milli stjórnar Eyþings og menntamálaráðherra um menningarsamning fyrir svæðið. Lýst er vonbrigðum með að menntamálaráðherra hafi ekki séð sér fært að eiga fund með stjórninni.
Hvatt er til áframhaldandi samstarfs Eyþings og Háskólans á Akureyri um stjórnunarnám með áherslu á stjórnun sveitarfélaga. Fagnað er framkomnum hugmyndum um framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð og skorað á stjórnvöld að hraða undirbúningi stofnunar skólans.
Fundurinn fagnaði þeim undirbúningi sem hafinn er varðandi uppbyggingu orkufreks iðnaðar við Húsavík. “Með þeirri ákvörðun að nýta orkuna frá háhitasvæðunum í nágrenni Húsavíkur til uppbyggingar stóriðju þar lágmarkast sú umhverfisröskun og sá kostnaður sem óhjákvæmilega hlýst af byggingu nauðsynlegra orkuflutningsmannvirkja. Vænta má mjög jákvæðra áhrifa á þróún atvinnulífs og búsetuskilyrða í Þingeyjarsýslum og Eyjafirði. Aðalfundirnn leggur ríka áherslu á að sú orka sem til stendur að virkja á umræddum háhitasvæðum verði nýtt til eflingar atvinnulífs á svæðinu,” segir í ályktun fundarins.