Byggðaáætlun 2010 -2013

Stjórn Eyþings fékk til umsagnar drög að þingsályktun um byggðaáætlun 2010 - 2013. Umsögnin er birt hér:
Almennt.
Áætlunin hefur tekið miklum breytingum frá þeim drögum sem kynnt voru í mars sl. Framsetning áætlunarinnar er nú mun skýrari  og markvissari. Viðfangsefnið er flokkað í 7 lykilsvið þar sem settar eru fram tillögur um aðgerðir, alls 32 talsins. Áætlunin ber nú undirtitil sem er sóknaráætlun í atvinumálum.
Eins og bent var á í umsögn Eyþings 5 maí sl. þá eru efnistök og innihald áætlunarinnar mjög breytt frá fyrri áætlunum. Sjónarhorn þessarar áætlunar er mun þrengra og miðast fyrst og fremst við iðnaðarráðuneytið og stofnanir sem heyra undir verksvið þess, sbr. undirtitil áætlunarinnar. Áætlunin er góð og gild sem áætlun um áherslur í starfi iðnaðarráðuneytisins. Af þessu leiðir hins vegar að ráðuneyti sveitarstjórnarmála, og stofnanir sem undir þess verksvið heyra, er sjaldan tilgreint þó óumdeilt hafi það veigamikið hlutverk í byggðaaðgerðum.
Athygli vekur þegar tillögur um aðgerðir eru skoðaðar að tiltölulega fáar þeirra eru í raun um beinar byggðaaðgerðir, heldur almennar aðgerðir til eflingar atvinnulífs í landinu og margar hverjar mjög áhugaverðar sem slíkar. Þannig eru t.d. lagðar til mjög athyglisverðar aðgerðir sem lúta að ferðaþjónustu í landinu. Niðurstaða stjórnar Eyþings er því sú að líta beri á þau drög að byggðaáætlun sem hér til umsagnar sem „stefnu og aðgerðaáætlun iðnaðarráðuneytisins í atvinnuþróun á Íslandi 2010 – 2013“.
Tengsl við 20/20 Sóknaráætlun.
Eins og fram kemur í upphafi tillögunnar á byggðaáætlunin að verða hluti af þeirri sóknaráætlun sem nú er unnið að fyrir alla landshluta og er hluti af sóknaráætlun fyrir Ísland, sem hlotið hefur nafnið 20/20 Sóknarráætlun. Gerð sóknaráætlana fyrir einstaka landshluta er leidd af landshlutasamtökum sveitarfélaga. Í ljósi þess sem hér að framan er sagt um almennar áherslur þingsályktunartillögunnar má væntanlega líta svo á að hún sé innlegg iðnaðarráðuneytisins við gerð sóknaráætlana fyrir einstaka landshluta. Vænta má þess að hægt verði að tengja saman hugmyndir ráðuneytisins og þær hugmyndir sem koma fram við gerð landshlutaáætlana.
 
Tillögur að aðgerðum.
Ekki er tilefni til mikilla athugasemda við þær tillögur sem settar eru fram í áætluninni, en fáein atriði skulu þó nefnd. Í drögum að byggðaáætlun frá því í mars sl. var að finna veigamiklar beinar byggðaaðgerðir sem nú hafa verið felldar út. Í fyrri umsögn sinni lagði stjórn Eyþings til að sex aðgerðir yrðu settar fram sem forgangsverkefni í áætluninni til að skerpa áherslur hennar. Þar á meðal var jöfnun flutningskostnaðar og fjölgun starfa ríkisins á landsbyggðinni. Ekki er lengur að finna tillögur að þessum aðgerðum sem að mati stjórnar Eyþings er mjög miður. Hægt væri að fella fjölgun starfa á vegum ríkisins inn sem lið í eflingu landshlutakjarna. Án efa er staðsetning starfa og stofnana ríkisins ein veigamesta byggðaaðgerð ríkisvaldsins og sem til þessa hefur fyrst og fremst nýst Reykjavík.
Stjórn Eyþings gerir verulegar athugasemdir við þátt menningarsamninga eins og hann skilgreindur í 32. tillögu um skapandi greinar og listnám. Hafa ber í huga að menningarsamningarnir eru gerðir milli mennta- og menningarmálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis annars vegar og landshlutasamtaka sveitarfélaga, f.h. sveitarfélaga síns svæðis hins vegar. Menningarsamningarnir hafa gefist mjög vel og verkað hvetjandi á listir og skapandi greinar gegnum verkefnastyrki. Lögð hefur verið áhersla á sérkenni hvers svæðis. Ef vilji er til að hvetja sérstaklega til aukins listnáms er eðlilegt að það gerist fyrir tilstuðlan menntamálaráðuneytis  t.d. með auknu listnámi í framhaldsskólum og fræðslumiðstöðvum. Eins og fram kemur í fyrri umsögn stjórnarinnar leggur hún áherslu á mikilvægi menningarsamninganna.
Eins og fram kemur í tillögunni er samþætting opinberra áætlana og aukið samstarf eitt af lykilsviðum nýrrar byggðaáætlunar. Þetta er auk þess einn af meginþáttum í vinnu að sóknaráætlun og allar þær aðgerðir sem upp eru taldar (tillögur 8 – 11) mikilvægar. Fyrir liggur ákvörðun um að landshlutasamtök sveitarfélaga koma að þessari vinnu gegnum sóknaráætlanir landshlutanna. Í nýlegri skýrslu um hlutverk landshlutasamtakanna er m.a. lagt til að vinna að samræmingu áætlana og fjölþjóðlegt samstarf verði meðal verkefna þeirra.
Að lokum er vakin athygli á því að í nokkrum tilvikum eru einstök nafngreind fyrirtæki tilgreind sem þátttakendur í aðgerðum, svo sem í 4., 5. og 18. tillögu. Þetta er óæskilegt og ber að fella þau út úr texta, þó að um geti verið að ræða fyrirtæki sem notið hafi sérstakra fjárframlaga frá ríkinu.