Bókun stjórnar vegna frumvarps til fjárlaga 2017

Stjórn Eyþings fjallaði um frumvarp til fjárlaga 2017 á fundi sínum föstudaginn 16. desember og samþykkti eftirfarandi bókun: 

Á fundi með umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í apríl sl. kynntu fulltrúar Eyþings tvö mál fyrir nefndinni sem lögð var rík áhersla á að færi inn í fjögurra ára samgönguáætlun. Undir sjónarmið Eyþings var tekið og lagði nefndin til að þessi verkefni færu inn á áætlun, annars vegar að lokið yrði við gerð Dettifossvegar og hins vegar að áfram yrði unnið að undirbyggingu flughlaðs á Akureyrarflugvelli með því að nýta til þess efni sem til fellur úr Vaðlaheiðargöngum.

Báðar þessar framkvæmdir eru gríðarlega mikilvægur þáttur í uppbyggingu innviða fyrir ferðaþjónustu og atvinnulíf á Norðurlandi eystra og raunar fyrir landið allt. Um er að ræða framkvæmdir sem eru forgangsmál í sóknaráætlun Norðurlands eystra 2015 – 2019. Í því samhengi er minnt á eftirfarandi markmið samgönguáætlunar: „Í samræmi við sóknaráætlanir landshluta verði við forgangsröðun framkvæmda tekið mið af þörfum einstakra svæða fyrir bættar samgöngur til að efla sveitarfélög, styrkja vinnusóknarsvæði og landið allt“. Í ljósi þessa leggur stjórn Eyþings ríka áherslu á að fjárveiting verði tryggð til þessara verkefna í samræmi við samgönguáætlun og skorar á Alþingi að tryggja að svo verði.

Þá vill stjórn Eyþings að lokum lýsa yfir ánægju sinni með að gert er ráð fyrir 75 mkr. aukaframlagi til almenningssamgangna á landsbyggðinni til að mæta erfiðum rekstrarskilyrðum.