Athugasemdir við umfjöllun um Vaðlaheiðargöng

Eyþing hefur sent frá sér eftirfarandi athugasemdir vegna umfjöllunar Spegilssins hjá RÚV um væntanleg Vaðlaheiðargöng:
Eyþing, Samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, gerir alvarlegar athugasemdir við margt sem fram kom í viðtali við Þórð Víking Friðgeirsson, lektor í verkfræði við HR, sem flutt var í Speglinum þriðjudaginn 16. október síðastliðinn.
Í inngangi að viðtalinu er fullyrt að öll göng sem boruð hafa verið á Íslandi hafi farið fram úr áætlunum og nú sé komið að Vaðlaheiðargöngum. Þetta er ekki rétt. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni var kostnaður við þrenn af síðustu fjórum jarðgöngum, sem gerð voru á Íslandi, á kostnaðaráætlun eða var undir áætlun. Sjá meðfylgjandi tölvupóst frá Vegagerðinni.
Í viðtalinu segir Þórður að félagið Greið leið hafi „pantað gögn og skýrslur sem unnar voru af heimamönnum“ og Þórður gefur þeim sem hann kallar heimamenn þessa einkun „það er ekki hægt að ætlast til þess að fólk með þetta ríka hagsmuni sé að gefa óvinhalla mynd...“ Umfangsmikil verkefni kalla á margvíslega rannsóknarvinnu og úttektir og var meðal annars leitað eftir þjónustu Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri (RHA), sem er sjálfstæð rannsóknareining innan Háskólans. Starfsmenn RHA búa yfir mikilli reynslu af samgönguverkefnum enda hefur miðstöðin m.a. unnið rannsóknarverkefni fyrir Samgönguráðuneytið og Vegagerðina.
Fræðilega úttekt ber að gagnrýna á fræðilegum og málefnalegum forsendum en ekki með tilefnislausum upphrópunum um sérhagsmunagæslu. Eyþing telur að með orðalaginu „að panta gögn og skýrslur af heimamönnum„ sé verið að gera lítið úr starfsmönnum RHA og faglegri vinnu þeirra og véfengja um leið niðurstöður þeirra. Með sömu rökum mætti fullyrða að rannsóknarstofnanir á höfuðborgarsvæðinu séu óhæfar til að vinna verk ef um er að ræða framkvæmdir á eða í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins.
Margar rangfærslur koma fram í máli Þórðar. RHA gerði til að mynda aldrei skýrslu um samfélagslegt gildi Vaðlaheiðarganga eins og hann segir og því hefur aldrei verið haldið fram að unnt væri að gera göng undir Vaðlaheiði og reka þau án aðkomu ríkisins. Ekki er heldur hægt að bera saman niðurstöður kannana þar sem verið er að skoða mismunandi þætti, því þá fást ávallt mismunandi niðurstöður.
Með málflutningi sínum og röngum fullyrðingum er Þórður Víkingur Friðgeirsson, lektor í verkfræði við HR, að gera lítið úr mikilli vinnu fjölda sérfræðinga, alþingismanna, ráðherra og sveitarstjórnarmanna, fólks sem unnið hefur af heilindum að undirbúningi Vaðlaheiðarganga.

Fyrir hönd Eyþings,
Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri

Eftirfarandi eru upplýsingar frá Vegagerðinni um kostnaðaráætlanir og heildarkostnað síðustu fjögurra jarðganga á Íslandi. (Áætlun gerð fyrir opnun tilboða) Tölurnar miðast við verðlg 2011.

Göng og framkvæmdatímabil

Lengd km Verðlag Áætlun m.kr. Kostnaður m.kr.  Kostn/áætlun
Hlutfall 

Almannaskarðsgöng
2003-2006

 1,3  2006  1300  1277  0,98 Fáskrúðsfjarðargöng
2003-2006  5,9  2006  4739  4455  0,94

Héðinsfjarðargöng
2005-2011

 11  2011  12717  15189  1,19 Bolungarvíkurgöng
2006-2011  5,4  2011  7227  7256  1,00