23 í stjórnunarnámi Eyþings sem hófst í gær

Nýr nemendahópur í stjórnunarnámi Eyþings og Símenntunar Háskólans á Akureyri settist á skólabekk í HA í gær. Kennt er í þrjár annir og útskrifað vorið 2006. Um er að ræða nám samhliða starfi og er kennt einu sinni í mánuði, frá miðvikudegi til laugardags. Þetta er í annað sinn sem Eyþing og Símenntun HA efna til náms af þessu tagi.
Að þessu sinni eru nemendur 23 talsins og koma þeir bæði frá sveitarfélögum, stofnunum og fyrirtækjum vítt og breitt um Norðurland. Fyrirkomulag námsins miðar einmitt að því að gera þeim kleyft sem búa fjærst kennslustað að sækja námið en geta jafnframt stundað sína vinnu.
Lögð er áhersla á að námið sé hagnýtt og þó að viðfangsefni sveitarfélaga, sem og opinber stjórnsýsla, séu skoðuð sérstaklega byggir námið að stærstum hluta á efni sem á við í öllum stjórnunarstörfum. Námið jafngildir 15 eininga námi á háskólastigi og er kennt í samtals 300 klukkustundir á þessum þremur önnum. Námið er byggt upp sem ein heild í fjórum efnisflokkum, þ.e. fjármál, rekstur og áætlanagerð (100 klst.), upplýsingatækni (40 klst.), stjórnsýsla (40 klst.) og stjórnun (120 klst.).
Námsáföngunum lýkur með verkefnamati eða prófum sem innifallin eru í kennslustundafjölda. Verkefnavinna er hins vegar utan hans.

   Nemendur í stjórnunarnámi Eyþings við upphaf kennslu í gær.