Fundargerð – Stjórn Eyþings – 322. fundur – 25. júní 2019

25.06.2019

Fundur haldinn þriðjudaginn 25. júní 2019 í zoom fjarfundarbúnaði og hófst fundurinn kl: 14:00. Fundi slitið kl. 15:40.

Fundinn sátu: Hilda Jana Gísladóttir formaður, Sóley Stefánsdóttir, Helgi Héðinsson, Katrín Sigurjónsdóttir, Kristján Þór Magnússon, Níels Guðmundsson endurskoðandi Enor og Helga María Pétursdóttir sem ritaði fundargerð. Elías Pétursson mætti á fundinn kl: 14:30 og Axel Grettisson afboðaði sig.

Framkvæmdastjóri setti fund og gengið var til dagskrár.

Dagskrá:

1.      Ársreikningur Eyþings 2018 ásamt endurskoðunarskýrslu.

Níels Guðmundsson endurskoðandi hjá Enor mætti á fundinn undir þessum dagskrárlið. Níels fór yfir ársreikninginn og svaraði spurningum.

Rekstartekjur ársins 2018 námu kr. 433,5 millj. samanborið við tekjur að fjárhæð kr. 416,0 millj. samkvæmt áætlun. Frávik í tekjum frá áætlun eru í heild kr. 17,4 millj. og skýrast að mestu af auknum tekjum vegna sóknaráætlunar en ekki hafði verið gert ráð fyrir framlögum vegna C1 verkefna í fjárhagsáætlun. Á móti auknum tekjum vegna sóknaráætlunar kemur svo tilfærsla framlaga til næsta árs en í áætlun var ekki gert ráð fyrir frestun á tekjum vegna ónýttra framlaga. Rekstrargjöld ársins námu kr. 428,3 millj. samanborið við gjöld að fjárhæð kr. 399,0 millj. samkvæmt áætlun. Helstu frávik koma fram í úthlutuðum styrkjum og aðkeyptri þjónustu. Rekstrarniðurstaða ársins 2018 var jákvæð um kr. 6,0 millj. samanborið við kr. 17,6 millj. jákvæða afkomu skv. áætlun.

Heildareignir í árslok 2018 námu kr. 180,2 millj. samanborið við kr. 170,8 millj. í ársbyrjun og hefur efnahagur sambandsins haldið áfram að stækka.

Eigið fé var í árslok neikvætt um kr. 47,5 millj. kr. samanborið kr. 53,5 millj. neikvæða stöðu í ársbyrjun. Uppsafnað tap samgönguhlutans stóð í árslok 2018 í um kr. 61,3 millj. og hafði lækkað um kr. 11,8 millj. milli ára.

Endurskoðandi fór í framhaldi yfir endurskoðunarskýrsluna.

Stjórn Eyþings staðfesti ársreikninginn og vísar honum til aðalfundar.

2.      Starfsmannamál.

Stjórn áréttar þá ákvörðun að ekki verði ráðið í starf verkefnastjóra hjá Eyþingi heldur verði framkvæmdastjóra falið að sinna verkefnum með öðrum hætti, til dæmis með aðkeyptri þjónustu eða formanni falið að sinna fleiri verkefnum þegar við á.