Fundargerð - Aðalfundur 2017

10.11.2017

Aðalfundur Eyþings 2017

Haldinn á Sigló hótel, Fjallabyggð

10. og 11. nóvember 2017 

Fundargerð

 

Föstudagur 10. nóvember

 

1.         Fundarsetning kl. 13:00.
Formaður Eyþings, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna fyrir hönd stjórnar.

1.1.       Starfsmenn fundarins og kjörnefnd.
Guðmundur Baldvin lagði til að fundarstjórar yrðu:

Fundarstjórar:
Steinunn María Sveinsdóttir.
Eiríkur Haukur Hauksson.
Samþykkt samhljóða.

Eiríkur tók við fundarstjórn og þakkaði traustið fyrir hönd þeirra Steinunnar. Eiríkur lagði eftirfarandi til um starfsmenn fundarins og kjörnefnd:

Ritarar:
Sóley Björk Stefánsdóttir.
Heiða Hilmarsdóttir.
Samþykkt samhljóða.

Kjörnefnd:
Silja Dögg Baldursdóttir, formaður.
Gunnlaugur Stefánsson.
Bjarni Th. Bjarnason.
Samþykkt samhljóða.

Ráðinn fundarritari: Linda Margrét Sigurðardóttir. 

1.2.       Skýrsla stjórnar.
Guðmundur Baldvin flutti stutta samantekt á skýrslu stjórnar sem send hafði verið á alla aðalfundarfulltrúa fyrir fundinn og mun fylgja með fundargerð aðalfundarins. 

1.3.       Sérstök greinagerð um sóknaráætlun.
Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings, benti á að ítarlega væri fjallað um sóknaráætlun í skýrslu stjórnar en sóknaráætlun er umfangsmesti þáttur í starfssemi Eyþings og því gerð sérstök skil hér á aðalfundi. Pétur Þór fór yfir stöðu fjármála sóknaráætlunar og viðbrögð við óráðstöfuðu fjármagni. Einnig sagði hann frá þeim áhersluverkefnum sem hafa verið starfrækt á grundvelli sóknaráætlunar frá árinu 2015 og hugmyndum að nýjum áhersluverkefnum. 

1.4.       Ársreikningur og fjárhagsáætlun.
Aðalfundarfulltrúar fengu ársreikninginn sendan sem fundarskjal. Skýringar og sundurliðanir eru nákvæmar í ársreikningnum. Einnig voru tillögur að endurskoðaðri fjárhagsáætlun fyrir árið 2017 og fjárhagsáætlun 2018 ásamt skýringum sendar til fulltrúa.

Helstu niðurstöður ársreiknings eru þessar:

Rekstrarreikningur 2016

Rekstrartekjur                                                 321.705.462
Rekstrargjöld                                                  306.648.025
Rekstrarniðurstaða án fjármagnsliða                15.057.437
Fjármunatekjur                                                    1.473.844
Rekstrarniðurstaða ársins                                 16.531.281 

Efnahagsreikningur 31. des 2016

Eignarhlutir í félögum                                         4.480.829
Veltufjármunir                                                156.763.800
Eignir samtals                                                 161.244.629
Eigið fé                                                           (53.069.091)
Lífeyrisskuldbindingar                                       23.831.554
Skammtímaskuldir                                          190.482.166
Eigið fé og skuldir samtals                               161.244.629 

Pétur Þór lagði til að ársreikningi 2016 og fjárhagsáætlunum yrði vísað til fjárhags- og stjórnsýslunefndar. 

1.5.       Tillögur og erindi frá stjórn og fulltrúum.
Guðmundur Baldvin kynnti þrjár tillögur frá stjórn og lagði til að þeim yrði vísað til fjárhags- og stjórnsýslunefndar.

 1. Breytingar á lögum Eyþings. Tillagan var send öllum fulltrúum fyrir aðalfund.
 2. Gerð tillögu varðandi skipan fagráða og úthlutunarnefndar.
 3. Tillaga að frestun á Svæðisskipulagi fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi eystra. 

 

2.       Almenningssamgöngur.
Guðmundur Baldvin fór yfir stöðu almenningssamgangna. Í skýrslu stjórnar er einnig ítarleg umfjöllun um almenningssamgöngur. Samningar um almenningssamgöngur gilda til ársloka 2018 en eru uppsegjanlegir fyrir marslok 2018. Landshlutasamtökin skipuðu nefnd til að fara yfir stöðu mála. Í henni eru Páll S. Brynjarsson framkvæmdastjóri SSV, Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri SASS og Guðmundur Baldvin. Upphaflega var það vilji hjá landshlutasamtökunum að taka yfir almenningssamgöngur og byggði Eyþing sína ákvörðun á áætlunum VSÓ. Samkvæmt þeim var mikil hagnaðarvon í verkefninu og möguleiki á því að stækka kerfið. Fljótlega áttuðu menn sig á því að það var vitlaust gefið af hálfu ríkisins. Viðbrögð við hallarekstri leiddu til þess að skorið var niður eins og heimilt var skv. samningi eða um 25%. Þegar verkefnið var komið í þrot árið 2013 höfnuðu sveitarfélögin því að skuldsetja Eyþing. Sveitarfélögin ætluðu ekki að borga þennan brúsa. Stjórn Eyþings ætlaði að segja samningnum upp árið 2014 en Vegagerðin taldi að samningurinn væri óuppsegjanlegur. Ákveðið var að Vegagerðin myndi fjármagna það sem upp á vantaði á meðan væri verið að leita lausna. Enn hefur ekki náðst samstaða um gjaldskrárbreytingar en lagabreytingar sem taka á ofaní akstri eru loks komnar fram. Eyþing og SSV eru búin að taka saman gögn um ofaní akstur á leið 57 og munu þau verða send á Samgöngustofu.
Eyþing er með uppsafnað tap sem fjármagnað hefur verið af Vegagerðinni. Árið 2016 kom aukaframlag frá ríkinu og í hlut Eyþings komu 32 mkr. vegna rekstrarvanda og 5 mkr. í þróunarstyrk. Þetta aukaframlag var einnig greitt árið 2017. Aukaframlag vegna rekstrarvanda átti að auðvelda Eyþingi reksturinn og að greiða Vegagerðinni til baka. Eins og staðan var á miðju ári 2017 var ljóst að Vegagerðin myndi ekki fá neitt upp í lánið eins og áhorfðist. Vegagerðin hætti því að greiða Eyþingi af aukaframlaginu og krafðist aðgerða. Eyþing gat ekki hækkað farþegatekjurnar eitt og sér þar sem gjaldskrá er sameiginleg. Tekin var ákvörðun um að fella niður akstur milli Húsavíkur og Þórshafnar. Þar sem búið var að skera niður eins og heimilt var í samningum við verktaka þurfti að semja sérstaklega við verktakann um að fella aksturinn niður. Með þeirri ákvörðun verður vonandi hægt að greiða eitthvað til baka til Vegagerðarinnar. Tekjur af leið 57 eru að lækka og Eyþing mun líklega ekki fá neinar tekjur af henni árið 2018. Eyþing getur ekki annað en haldið rekstrinum áfram til ársloka 2018. Það liggur ekkert fyrir um að Eyþing fái 37 mkr. á næsta ári. Nú eru öll landshlutasamtökin komin í rekstrarvanda og munu öll sækja af meiri hörku í aukaframlag ríkisins. Eyþing þarf að fá 20-25 mkr. til að koma í veg fyrir taprekstur á árinu 2018. Stjórn Eyþings telur sig standa á því hreinu að skuldin sé ekki Eyþings. Aukaframlag ríkisins er viðurkenning á því að það var vitlaust gefið. Landshlutasamtökin hafa ekki efni á því að borga þetta.
Vandinn hefur aukist um allt land. Vegagerðin ætlar líka að segja samningum upp. Það liggur fyrir að verkefninu verður sagt upp í mars. Fulltrúaráðið var skýrt í afstöðu sinni og aðalfundur þarf að álykta um þetta mál. Niðurstaðan er sú að almenningssamgöngur verða ekki reknar með óbreyttu fjármagni. 

3.       Niðurstaða forverkefnis (verkefnisáætlunar) um svæðisskipulag fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi eystra.
Matthildur Kr. Elmarsdóttir, skipulagsráðgjafi hjá Alta ehf.
Matthildur kynnti verkefnistillögu um svæðisskipulag fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi eystra. Verkefnið er áhersluverkefni sóknaráætlunar. Heimasíða verkefnisins er https://www.eythingferdamal.com/ og þar má finna ítarlegar upplýsingar um verkefnið sem og verkefnistillöguna.
 

4.       Kostir og gallar sameiningar Eyþings og atvinnuþróunarfélaganna. Ólík sjónarmið.

Sif Jóhannesdóttir stjórnarmaður í Eyþingi.
Sif las upp bókun Byggðaráðs Norðurþings frá 15. júní sl. „Undanfarið hafa verið til skoðunar ýmsar hugmyndir um útfærslu stoðkerfis atvinnumála, m.a. hvort fýsilegt sé að auka samrekstur annað hvort innan Héraðsnefndar Þingeyinga bs. eða á Eyþingssvæðinu með Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar. Byggðarráð fer með atvinnumál í stjórnsýslu Norðurþings.
Byggðarráð telur kosti sameiningar atvinnuþróunarfélaganna og Eyþings ekki vega upp þá galla sem af því hlýst og mun ekki skoða þann kost frekar að svo stöddu. Nálægð við viðfangsefnið, þ.e. atvinnulíf og frumkvöðla á hverju svæði, er ein meginforsenda árangursríks starfs í atvinnuþróun og því vænlegast að vinna áfram með stofnanakerfi sem nýtir best þessa nálægð. Lögð verði mikil áhersla á áframhaldandi gott og traust samstarf við Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Eyþing.
Byggðarráð telur hins vegar fýsilegan kost að fella starfsemi Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga undir Héraðsnefnd Þingeyinga bs. og starfrækja félagið í því formi við hlið annarra samstarfsverkefna þingeyskra sveitarfélaga. Fulltrúaráð Héraðsnefndar Þingeyinga bs. hefur þegar samþykkt að fara þessa leið”.
Sif sagði vilja standa til þess að efla Héraðsnefnd Þingeyinga og fella Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga (AÞ) þar undir en það útiloki ekki aðrar breytingar. AÞ er mikið frábrugðið Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar (AFE). AÞ er hlutafélag í eigu sveitarfélaga og fyrirtækja og starfar í nánu samstarfi við stéttarfélag og atvinnulíf á svæðinu. Það sinnir fyrst og fremst þróun atvinnulífs en er ekki hagsmunasamtök. Þá sagði Sif að ljóst væri að Þingeyingar væru neikvæðari fyrir sameiningu og fyrir því væru ákveðnar ástæður. Þingeyingar eru með fyrirkomulag sem virkar vel fyrir þá. Það eru fullt af kostum sem fylgja sameiningum en ekki tímabært að fara í þær á þessum punkti. Eyþing er eina landshlutasamtökin sem er með tvö atvinnuþróunarfélög á sínu svæði en það eitt og sér geta ekki verið rökin fyrir sameiningu. Starfsemi landshlutasamtakanna allra er mjög ólík. Lykilatriði að muna að þessi bókun er ekki yfirlýsing um að Norðurþing sé á móti samstarfi. Það munu verða breytingar með tilkomu Vaðlaheiðaganga og við eigum eftir að taka þessa umræðu oft aftur.

Eiríkur H. Hauksson stjórnarmaður í Eyþingi.

Eiríkur taldi að þrátt fyrir mismunandi eignarhald á félögunum þá væru það sveitarfélögin sem væru drifkrafturinn í báðum félögum svo það væri ekki stóri munurinn. Með Vaðlaheiðargöngum munu verða meiri breytingar en flestir gera sér grein fyrir. Skýrslan frá RHA er gott byrjunarplan. Að mati Eiríks hefði þurft að vinna áfram og leggja fram meiri niðurstöður áður en Norðurþing kom með bókunina. Við stígum þetta skref þegar það ríkir sátt um það. Við breytum ekki til að breyta. Hluti af göllunum skv. skýrslunni var að þekking myndi tapast en það hefur enginn talað um að það eigi að fækka starfsmönnum eða starfsstöðum. Gallarnir skv. skýslunni eru verkefni sem við þurfum að leysa. Tíminn mun leiða í ljós að þetta samtal haldi áfram og að lokum verði sameining en það verður að vera vilji allra. Skýrsluhöfundar nefndu að sameinuð eining yrði stærri og með aukinn slagkraft. Eiríkur vonast til að áfram verði unnið með þessa vinnu í framtíðinni. 

Fyrirspurnir og umræður.

Arnór Benónýsson tók til máls. Aðalfundur samþykkti að kanna kosti og galla sameiningar. Norðurþing gerði ákveðna bókun. Við skulum ekki eyða tíma í að rífast um þetta, það verður ekki farið gegn vilja Norðurþings. Það er til mikið af peningum í sóknaráætluninni sem ekki hafa gengið út. Við þurfum að spyrja af hverju svo er. Nú er tímabært að ræða í alvöru tilgang Eyþings og til hvers við viljum nota Eyþing. Ekki af því að ríkið er að senda eitthvað til okkar. Eyþing ræður ekki við verkefnin. Fundurinn verður að spyrja hvað við viljum fá með Eyþingi. Verkefnum frá ríkinu verður að fylgja völd, þetta er embættismannastýrt kerfi. Þetta gengur ekki svona. Ég er búinn að vera í stjórn Eyþings í þrjú ár. Eyþing virkar ekki. Sóknaráætlun, Vaðlaheiðagöng og strætó segja okkur það. Hvað viljum við fá, ekki hvað ríkið vill. Við eigum að stjórna því.

Sóley Björk Stefánsdóttir sagðist vera jákvæð fyrir almenningssamgöngum. Hún hvatti til þess að aðalfundarfulltrúar hugsuðu lausnamiðað og gæfust ekki upp strax. Það þarf að gefa sameiningu stoðstofnana meiri tíma og ræða það aftur síðar þegar komin er reynsla á breytingar vegna tilkomu Vaðlaheiðarganga. Þá spurði hún hvort Eyþing og aðalfundarfulltrúar gætu verið duglegri að ýta á stofnanir í kringum sig að taka að sér áhersluverkefni.

Ólafur Rúnar Ólafsson þakkaði fyrir skýrsluna um sameiningu Eyþings og atvinnuþróunarfélaganna og taldi að samtalið muni halda áfram. Hann vildi ekki taka undir með Arnóri að Eyþing virki ekki. Hins vegar væri spurning hvort verið væri að eyða kröftum Eyþings í rétta hluti. Í upphafi var lagt upp með að vera með þolinmæði gagnvart almenningssamgöngum. Áætlanir í upphafi og svo tölur sem við erum að sjá núna leiða í ljós að þetta kerfi er ekki að virka. Á að eyða kröftum Eyþings í að sjá um almenningssamgöngur eða er kröftum starfsfólks Eyþings betur varið í önnur verkefni?

Gunnar Gíslason kom inn á stöðu Eyþings. Hvers ætlumst við til af Eyþingi? Er það staður sem menn koma saman og spjalla og eru vinir í einni óvissuferð og fara svo heim. Við eigum að taka samtal um Eyþing og hvert við viljum fara og stefna. Skýrsla RHA átti að vera grundvöllur samræðna. Bókun Norðurþings lýsir ákveðinni hræðslu. Svipað og þegar sameining sveitarfélaga er rædd. Hún verður fyrr eða síðar og ef við viljum ekki ræða það endar það á því að við fáum ekki um það ráðið. Ef Eyþing getur ekki verið sá vettvangur að við ræðum þetta málefnalega verður það þannig. Með Vaðlaheiðargöngum gjörbreytast samgöngur og vegalengdir. Það er sjálfsagt að ræða þetta til enda. Hver ákvað að Eyþing ætti að verða þriðja stjórnsýslustigið? Ríkið eða Alþingi? Ekki gerðum við það. Þegar Eyþing tók almenningssamgöngur og sóknaráætlun var verið að ýta verkefnum að okkur og að við verðum þriðja stjórnsýslustigið. Gunnar sagðist vera á móti því. Rökin fyrir að Eyþing tæki almenningssamgöngur að sér var sú að stjórnun þeirra væri best komin hjá fólki sem þekki aðstæður best. En það er dautt og ómerkt ef það fylgir ekki fjármagn. Almenningssamgöngur eiga heima hjá Vegagerðinni. Við eigum að skila þeim. Getum ekki og höfum ekki heimild til að safna skuldum í nafni Eyþings.

Sif Jóhannesdóttir sagði að sóknaráætlun og uppbyggingarsjóður væru frábær verkefni. Hins vegar hefði Eyþing ekki nægan tíma og mannskap til að sinna því. Sif svaraði fyrirspurn Sóleyjar Bjarkar og sagði að í sóknaráætlun væru skilgreindir ábyrgðaraðilar sem þurfi að virkja og koma af stað.

Snorri Finnlaugsson spurði hvað Eyþing ætlaði sér með almenningssamgöngur, hvort það ætti að hætta með þær og skila verkefninu? Hann taldi að það yrði að taka þá ákvörðun strax. Hann spurði Guðmund Baldvin hvað hann sæi fyrir sér. Þá spurði hann hver raunverulega talan yrði sem stæði út af eftir árið 2018 og hvað ætti að gera með hana. Þá spurði hann hvort Eyþing myndi standa uppi með tapið þrátt fyrir að þetta sé ekki lagalega eitt af verkefnum þess? Snorri taldi að almenningssamgöngum væri betur borgið hjá Eyþingi en Vegagerðinni. Hins vegar ætti Eyþing ekki að láta segja sér hvað það eigi að gera án þess að fá fjárhagslegan og hugsanlega lagalegan grundvöll til þess.

Guðmundur Baldvin sagðist ekki vera sammála því að Eyþing væri ekki að virka. Mjög mikill tími væri búinn að fara í almenningssamgöngur á undanförnum mánuðum og því hafi starfsfólk Eyþings ekki haft tíma til að sinna sóknaráætlun. En auglýsingar um uppbyggingarsjóð væru komnar í loftið og hvatti Guðmundur Baldvin aðalfundarfulltrúa til að benda fólki á sjóðinn. Þá minnti Guðmundur Baldvin á að verkefnið um Vaðlaheiðargöng er sprottið upp úr mikilli vinnu á vettvangi Eyþings sem formlega hófst árið 2002. Guðmundur Baldvin taldi að almennt hafi þjónustan í almenningssamgöngum batnað eftir að landshlutasamtökin tóku þær yfir en hvað kostar hún? Hvað eigum við að kosta miklu til og hvaðan eiga peningarnir að koma? Sveitarfélögin eru ekki í stakk búin til að taka yfir reksturinn miðað við forsendur í dag, ekki nema að meira fjármagn komi til. Guðmundur Baldvin sagðist vera sammála öðrum fulltrúum um að skýrsla RHA hafi verið undirbúningsplagg og að það eigi að halda áfram með umræðuna. Hvenær næsta skref verði tekið veit enginn. Sveitarfélög vilja ekki fá þriðja stjórnsýslustigið, við þurfum að eiga betra samtal við ríkið. Það er verið að þröngva verkefnum upp á sveitarfélögin. Ef við vinnum vel saman á þessum vettvangi getum við náð árangri. Í lok árs 2018 munu væntanlega standa 50-60 milljónir útaf vegna almenningssamgangna.

Kaffihlé 

5.       Ávörp.

Jón Gunnarsson ráðherra sveitarstjórnarmála.
Jón ræddi um fundi sem hann hefur haldið um land allt en hann hefur heimsótt um 40 sveitarfélög. Fannst honum kraftur og bjartsýni vera einkennandi og víða uppbygging en skortur á húsnæði hamlar. Þá sagði hann frá nýjum húsnæðissáttmála ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaga sem kynntur var 2. júní s.l.
Að mati Jóns eru stærstu hagsmunamál landshlutans í heild:
Samgöngumál – millilandaflug um Akureyrarflugvöll
Fjarskiptamál
Dreifikerfi raforku
Jón kom aðeins inn á kosningar til sveitarstjórna 2018. Kosningaþátttaka 2014 var í sögulegu lágmarki og endurnýjun sveitarstjórnarmanna var um 54.4%. Nú stefnir í 50-60% endurnýjun sveitarstjórnarmanna. Það þarf að bæta kjör þessa fólks sem starfar í þessu samfélagsverkefni.
Að lokum hvatti Jón aðalfundarfulltrúa til að mæta á málþing Byggðastofnunar um raforkumál og taka þar til máls.

Kristján Þór Júlíusson 1. þingmaður Norðausturkjördæmis.
Kristján Þór bar kveðju þeirra þingmanna sem ekki komust. Það varð dálítil endurnýjun í þingmannahópnum eftir síðustu kosningar. Kristján Þór sagði að verkefnin væru ærin. Þingmenn kjördæmisins hefðu alltaf getað unnið vel saman að málefnum kjördæmisins. Helstu burðarmálaflokkarnir væru þrír: samgöngur, menntun og heilbrigðismál. Kristján Þór þakkaði fráfarandi þingmönnum samstarfið og fyrir hönd þingmanna kjördæmisins óskaði hann eftir góðu samstarfi hér eftir sem hingað til.

Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Sambandið er lögformlegur samskiptaaðili við ríki og Alþingi um málefni er varða sveitarstjórnarstigið. Sambandið veitir um 60-80 umsagnir á ári um lagafrumvörp og reglugerðardrög til að verja hagsmuni sveitarfélaga. Fyrir liggur að nýr formaður Sambandsins verði kosinn næsta haust. Að mati Halldórs vantar meira samhengi í hvað Sambandið hefur verið að gera. Landsþing er haldið á fjögurra ára fresti og svo er endurnýjun sveitarstjórnarmanna upp á 50%.
Halldór nefndi að ríkið tók á sig 24 ma.kr. halla sem sveitarfélögin báru ábyrgð á í A-deild LSR en sveitarfélögin bera áfram ábyrgð á 38.3 ma.kr. halla vegna A-deildar Brúar. Þá fór hann yfir stór málefni svo sem húsnæðismál, nýjar kröfum vegna persónuverndarlöggjafar og innkaupareglna, kjaramál og fleira.
Einnig ræddi hann um eflingu sveitarstjórnarstigsins og niðurstöðu nefndar um málið sem nýlega skilaði af sér áliti. Það þarf að marka skýra stefnu um þróun sveitarstjórnarstigsins til 20 ára. Jöfnunarsjóður þarf að styðja við stefnuna. Alþingi og ráðuneyti vinna markvisst að styrkingu sveitarstjórnarstigsins. Þjónusta við alla íbúa þarf að vera góð óháð því hver veitir hana. Sveitarstjórnarmenn vilja alls ekki þriðja stjórnsýslustigið.  

6.       Málefnavinna.
Pétur Þór, framkvæmdastjóri, gerði grein fyrir málefnavinnunni sem var með svipuðu sniði og í fyrra. Fulltrúum var skipt upp í fjárhags- og stjórnsýslunefnd og fjóra málefnahópa. Búið var að tilnefna formenn/umræðustjóra í hverri nefnd/hóp. Áhersla var lögð á samræður en ekki ályktanir í málefnahópunum. Á morgun leggur stjórn Eyþings fram drög að einni ályktun sem tekur á stærstu málefnum svæðisins með skírskotun til sóknaráætlun landshlutans. Stefnt er að því að úr málefnavinnunni komi gott veganesti til handa stjórn Eyþings.

Fundarhlé kl. 17:15
 

Laugardagur 11. nóvember.

7.       Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra (hófst kl. 9:10).
Alfreð Schiöth framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra.
Alfreð sagði rekstur Heilbrigðiseftirlitsins í góðu jafnvægi og nokkur rekstrarafgangur. Fjárhagsáætlun 2018 gerir ráð fyrir 2,25% hækkun á milli ára.
Alfreð fór yfir nokkur atriði sem hafa komið upp í starfi Heilbrigðiseftirlitsins undanfarið ár. Fráveitumál við Mývatn hefur verið stórt mál á árinu. Umhverfisstofnun er með Mývatn á rauðum lista. Málin hafa tekið langan tíma og umræðan verið óvægin. Ýmsar reglugerðir eru að breytast s.s. fráveitureglugerð. Hún er að verða skýrari og auðveldara að vinna eftir henni. Tilslökun í reglugerð þar sem viðtaki er öflugur. Það gæti haft jákvæð áhrif á fjárhag sveitarfélaga þar sem það á við.
Öll sveitarfélög þurfa að horfa í eigin garð og setja fráveitumál í forgang. Dæmi eru um að vatnsból hafi mengast ítrekað á síðustu árum. Mikilvægt er að treysta vatnsbólin eins og hægt er, hafa reglubundið eftirlit og eftir atvikum setja upp geislunartæki. Mikilvægt er að sveitarfélög hafi skýr og mælanleg viðmið um forhreinsun á skólpi sem veitt er í fráveitukerfi sveitarfélaga. Hugsanlega þarf að setja takmarkanir á brunna sveitarfélaga sem liggja beint út í sjó. Þá nefndi Alfreð dæmi um matarsýkingar og viðbrögð við þeim. 

Fyrirspurnir og umræður.

Eiríkur Björn Björgvinsson spurði hvort tilkynningum um myglu í húsum hefði fjölgað og hvort sveitarfélög eigi að vísa á Heilbrigðiseftirlitið.

Alfreð sagði að dregið hafi úr tilkynningum um myglu í húsum að undanförnu. Heilbrigðiseftirlitið leiðbeinir um viðbrögð við myglu en gerir ekki byggingarlega úttekt. Mikilvægt er að fá aðila til að gera slíka úttekt.

Þorsteinn Gunnarsson ræddi um fráveitumál í Skútustaðahreppi sem eru að þróast í rétta átt. Þorsteinn spurði Alfreð hvort Heilbrigðiseftirlitið gæti ekki slakað aðeins á kröfum og beðið eftir nýjum lögum.

Alfreð svaraði því til að Heilbrigðiseftirlitið geti ekki annað gert en farið eftir þeim reglum sem gilda á þeim tíma. Eftirlitið hefur verið gagnrýnt fyrir seinagang og einnig fyrir að ganga of hart fram.

Málefnavinna hófst 9:40. 

 

8.       Aðalfundarstörf (hófust kl. 10:45).
      (Samantekt nefnda og málefnahópa. Afgreiðsla tillagna og ályktana, kosningar o.fl.).
 

Silja Dögg Baldursdóttir formaður kjörnefndar tilkynnti að 30 aðalfulltrúar væru mættir á fundinn og 7 varamenn. Alls væri 92,5% mæting og fundurinn því lögmætur. 

8.1. Fjárhags- og stjórnsýslunefnd.
1. Gunnar Gíslason, formaður
2. Heiða Hilmarsdóttir
3. Dagbjört Jónsdóttir
4. Yngvi Ragnar Kristjánsson
5. Valtýr Hreiðarsson
6. Elías Pétursson
7. Olga Gísladóttir 

Ársreikningur 2016, ásamt endurskoðunarskýrslu.
Allt er hefðbundið í ársreikningi. Engar athugasemdir frá nefndinni við ársreikning og endurskoðunarskýrslu.
Skv. ársreikningi eru almenningssamgöngur reknar með afgangi. Aukaframlag var veitt vegna rekstrarerfiðleika og hluti þess gekk til niðurgreiðslu á skuld við Vegagerðina. Endurgreiðsla varð lægri en vænst hafði verið. Skuld Eyþings við Vegagerðina stendur núna í 47,9 milljónum í stað 58,9 milljónum í upphafi árs 2016.

Endurskoðuð fjárhagsáætlun 2017.
Helstu breytingar:
Uppgjör við starfsmann vegna starfsloka.
Hækkun vegna lokagreiðslu hlutafjár í Greiðri leið.
Tilfærsla úr sóknaráætlun yfir á skrifstofuna vegna hækkunar starfshlutfalls starfsmanns, en hafði ekki kostnaðarauka í för með sér.
Styrkur frá Sóknaráætlun - Svæðisskipulag ferðaþjónustu, 6.5 milljónir.
Styrkur frá Sóknaráætlun – Grunngerð og mannauður í menningarstarfi, 3 milljónir.

Almenningssamgöngurnar eru ekki í góðum málum. Aukaframlag sem fékkst vegna almenningssamgangna skilar áætlun réttu megin við núllið. Ekki er verið að greiða niður skuldina við Vegagerðina nema að litlu leyti þannig að í árslok 2017 mun skuldin væntanlega standa í um 42 milljónum.
Segja má að þó fjárhagsáætlun 2017 sé réttu megin við núllið þá er í raun um tap að ræða þar sem grunnforsendur rekstrar eru reknar með tapi ef ekki kæmi til þessa aukaframlags vegna almenningssamgangna. Að öðru leyti vel unnið plagg/áætlun sem stendur réttu megin við núllið.

Fjárhagsáætlun 2018.
Ekki er í hendi að Eyþing fái aukaframlag vegna almenningssamgangna á árinu 2018 og því ekki gert ráð fyrir því í áætlun. Það þýðir tap á rekstri um 20 milljónir króna.  Þetta er há fjárhæð fyrir samtök sem mega ekki og eiga ekki að skulda. Það er með öllu óásættanlegt að samtök eins og Eyþing séu að skila áætlun með neikvæðri afkomu. Það er ljóst að ef rekstrarforsendur almenningssamgangna verða ekki leiðréttar með hliðsjón af reynslu síðustu ára er óhjákvæmilegt að leita leiða til að skila verkefninu sem fyrst. 

Tillögur að breytingu á lögum Eyþings.
Engar athugasemdir og nefndin mælir með að breytingarnar verði samþykktar.

Tillaga varðandi skipan fagráða og úthlutunarnefndar.
Formaður sagði nefndina einhuga um tillöguna sem miðaði að vandaðri stjórnsýslu. Í samþykktum um stjórnskipulag uppbyggingarsjóðs um úthlutunarnefnd og fagráð sem samþykkt var af stjórn Eyþings 25.03.2015 og með breytingum 06.01.2017 leggur nefndin til eftirfarandi breytingar:

Í 1. mgr. á eftir setningunni: „Skipað er til tveggja ára í senn“, komi eftirfarandi setning: Sá sem hefur verið fulltrúi í þrjú tímabil í röð, það er sex ár, hefur ekki rétt til setu í úthlutunarnefnd næstu tvö árin. Aldrei skal skipta út fleiri fulltrúum en tveimur til þremur í einu.

Í 1. mgr. um úthlutunarnefnd þá verði síðasta setningin svo hljóðandi. Starfsmenn og stjórnarmenn landshlutasamtaka eða skyldra aðila geta ekki setið í úthlutunarnefnd.

Í umfjöllun um fagráð verði gerðar eftirfarandi breytingar á 1. mgr. Setningin „Formenn eru skipaðir sérstaklega“ verði svo: Formenn eru skipaðir sérstaklega og geta ekki verið stjórnarmenn í Eyþingi. Á eftir setningunni: „Skipað er til tveggja ára í senn“, komi eftirfarandi setning: Sá sem hefur verið fulltrúi í þrjú tímabil í röð, það er sex ár, hefur ekki rétt til setu í fagráði næstu tvö árin. Aldrei skal skipta út fleiri fulltrúum en tveimur til þremur í einu.

Rök: Dreifa ákvörðunartökunni. Einn og sami maðurinn geti ekki setið beggja megin borðs. 

Fyrirspurnir og umræður.

Arnór Benónýsson tók til máls og sagði sig úr fagráði menningar, sagði af sér sem varaformaður stjórnar Eyþings og sagði sig úr stjórn Eims og óskaði sérstaklega eftir því að þetta yrði fært til bókar. Þá sagðist hann vera búinn að vera í pólitík í 30 ár og síðastliðið eitt og hálft ár verið það ógeðfelldasta á hans ferli og tiltók atburði í kringum starfslokasamning menningarfulltrúa. Hann vill ekki sinna embættum sem stjórnin hefur látið hann í en hann sagðist sitja áfram í stjórn Eyþings en í stjórnarandstöðu nema að fundurinn myndi lýsa vantrausti á hann.

Siggeir Stefánsson nefndi að stjórn Eyþings hafi viljað skila almenningssamgöngum fyrir nokkrum árum en hafi fengið höfnun á það. Aðalfundur þarf að álykta um að skila verkefninu og að skuldir vegna þess skuli fylgja með. Einnig óskaði hann frekari skýringar á því hví Arnór Benónýsson sé að segja sig úr nefndum vegna óánægju.

Guðmundur Baldvin sagði að búið væri að ákveða að segja almenningssamgöngum upp og láta skuldirnar fylgja með. Það mun koma fram í ályktun frá aðalfundi.

Eva Hrund Einarsdóttir sagði að sér þætti miður að Arnór væri að segja sig úr fagráði menningar. Annar einstaklingur væri einnig búinn að segja sig úr fagráðinu. Hún lýsti yfir áhyggjum yfir fagráði menningar og stöðu menningarmála innan Eyþings.

Guðmundur Baldvin tók undir með Evu og sagði miður að Arnór væri búinn að segja af sér. Það væri ákveðin þekking sem færi út með honum. Það varð smá trúnaðarbrestur innan stjórnar í kjölfar þess að menningarfulltrúi óskaði eftir leyfi frá störfum. Guðmundur sagði menningarfulltrúa hafa óskað eftir ársleyfi við sig og Arnór. Þeir svöruðu óskinni jákvætt. Ákvörðun stjórnar var hins vegar sú að veita ekki leyfið og starfslokasamningur var gerður. Þetta er stóra málið og skýrir væntanlega óánægju Arnórs að hluta.

Gunnar Gíslason sagði að fjárhags- og stjórnsýslunefnd væri að beina til stjórnar tillögum að breytingum á samþykktum um stjórnskipulag uppbyggingarsjóðs um úthlutunarnefnd og fagráð. Ef aðalfundur mun samþykkja þær breytingar þá er það ákvörðun stjórnar hvenær reglurnar taka gildi. Mikilvægt er að allir hafi þann sama skilning. Vilji fjárhags- og stjórnsýslunefndar væri að stilla hlutunum upp með stjórnsýslulegri hugsun og það hefur ekkert með persónur að gera.

Sif Jóhannesdóttir lýsti yfir áhyggjum af þróun í menningarmálum. Þá taldi hún það ekki rétt hjá Guðmundi Baldvin að um hefði verið að ræða smá trúnaðarbrest, trúnaðarbresturinn hefði verið mikill. Meirihluti stjórnar var búinn að góðgera leyfi menningarfulltrúa í tölvupóstum. Á fundinum þar sem ákvörðunin hafi verið tekin hafi verið mikið af varamönnum.

Eiríkur H. Hauksson bætti við að þetta endurspeglaði að ekki ætti að taka á stórum málum í tölvupóstum þó svo að það hafi áður verið gert eins og Sif benti á.

Eiríkur bar eftirfarandi upp til samþykktar:

Ársreikning 2016.
Samþykkt samhljóða.

Fjárhagsáætlun 2017 endurskoðuð.
Samþykkt samhljóða.

Fjárhagsáætlun 2018 með bókun fjárhags og stjórnsýslunefndar.
Samþykkt. Eitt atkvæði á móti.

Tillaga stjórnar að breytingum á lögum Eyþings var lesin upp og er svohljóðandi:

                                                                                                 2.1.
Eyþing starfar með tilvísun til 97. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir nr. 69/2015.
Skýring: lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir nr. 69/2015 verði bætt við greinina. Í lögunum eru veigamikil ákvæði um hlutverk landshlutasamtaka sveitarfélaga í byggðamálum og ábyrgð þeirra við gerð og framkvæmd sóknaráætlunar. 

                                                                                                 3.1.
Aðalfundur Eyþings fer með æðsta vald í samtökunum.  Aðalfund skal að jafnaði halda eigi síðar en 15. nóvember ár hvert.  Fundarstaður er ákveðinn af aðalfundi.
Skýring: Lagt er til að aðalfund skuli að jafnaði halda eigi síðar en 15. nóvember í stað 10. október ár hvert. Breytingin er vegna reynslu tveggja síðustu ára.

Tillaga að lagabreytingum.
Samþykkt samhljóða.

Tillaga varðandi skipan fagráða og úthlutunarnefndar.

Elías Pétursson sagðist vera sammála þeim skilningi nefndarinnar að það væri stjórnar að taka ákvörðun um hvenær breytingarnar tæku gildi, hvort heldur strax eða við skipun nýrra úthlutunarnefndar og fagráða. Hann vildi koma því á framfæri að það væri ekki hlutverk stjórnar að vasast í starfsmannamálum eins og gert var með menningarfulltrúa. Þetta væri hlutverk framkvæmdastjóra.

Ólafur Rúnar Ólafsson spurði hverjir teldust til skyldra aðila í samþykktunum. Pétur Þór svaraði að það væru stoðstofnanir sveitarfélaga.

Töluverðar umræður urðu um þetta en fram kom tillaga um vísa málinu aftur til stjórnar sem skal koma með tillögur og senda þær út til aðalfundarfulltrúa fyrir aðalfund næsta árs.
Samþykkt samhljóða.

Fyrir mistök fórst fyrir að afgreiða tillögu um frestun á Svæðisskipulagi fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi eystra. 

Niðurstöður málefnahópa.

Málefnahóparnir afgreiddu ekki mál í formi ályktana heldur tóku ýmis mál til umræðu og skiluðu af sér umræðupunktum og ábendingum til stjórnar. Niðurstöður málefnahópana birtast hér á eftir. Málefnahóparnir formuðu jafnframt spurningar til að leggja fyrir þingmenn kjördæmisins í sérstökum dagskrárlið undir lok fundarins. 

8.2.  Málefnahópur um mennta- og menningarmál.

 1. Sigríður Huld Jónsdóttir, umræðustjóri
 2. Sif Jóhannesdóttir
 3. Preben Pétursson
 4. Jón Valgeir
 5. Sigurlaug Leifsdóttir
 6. Jón Þór Benediktsson
 7. Kristján Hjartarson
 8. Valur Þór Hilmarsson

Háskólinn á Akureyri - Færri karlar en konur sækja í skólann. Það þarf að horfa til þess að auka nám á tæknisviði þar sem á svæðinu er mikill iðnaður og það þurfa að vera námstækifæri fyrir þá sem hafa lokið iðnnámi. 
Er skortur á iðnmeisturum? Áhyggjuefni að skortur er á iðnmeisturum með kennsluréttindi. Þyrfti að vera í boði diplómunám til kennsluréttinda.
Námslán verði styrkjakerfi. Dreifbýlisstyrkur skiptir fjölskyldur úti á landi miklu máli en þarf að vera hærri.
Fjórða iðnbyltingin - hvernig er að ganga? Sumir skólarnir (sveitarfélög) vel tæknivæddir en aðrir ekki. Hvernig getum við undirbúið börnin okkar undir breytingarnar framundan? Þarf að breyta námsskrám, hvernig förum við í þá vinnu? Fyrst þarf umræðan að eiga sér stað. Er þörf á endurskoðun á aðalnámsskrá?
Iðn-og tæknigreinar líða fyrir það hve lítið þær eru kenndar og kynntar í grunnskólanum. Of margir þurfa að fara suður til náms ef nemendur velja að fara í iðn- og verknám.
Það þarf að gera framhaldsskólunum kleift að þjóna sínu nærsamfélagi og tryggja fjármagn til skólanna til þess. Efla þarf fagþekkingu á svæðinu m.a. í ferðaþjónustugreinum.
Skortur á styttri starfsnámsbrautum sem veita einhver réttindi.
Skólar kenna á lífið sjálft, ekki bara ákveðnar starfsgreinar.
Samvinna við atvinnulífið tengt kynningu á störfum og námi.
Listgreinar - takmörkuð kennsla í listgreinum á sumum svæðum/skólum. Fá sýningar og farandkennara í listgreinum inn á svæðin þar sem ekki eru fagmenntaðir kennarar.  Farandsýningar/farandskóli. Vísir að þessu er þegar í tónlistarkennslu.
Menning. Ríkið hefur dregið verulega úr fjárveitingum til safna. Safnasjóður hefur minnkað á síðustu árum. Öflugt menningarlíf á landsbyggðinni er mikilvægt.
Það vantar upp á meira samstarf og samvinnu innan svæðisins í menningarmálum.
Það vantar frekari aðstöðu fyrir íbúa þar sem hægt er að koma saman og vinna að listsköpun. “Íþróttahús” fyrir skapandi starf. Þarf að vera stöðuleiki varðandi húsnæði. Fyrir skapandi starf hefur gjarnan verið notað húsnæði sem er tímabundið laust.
Ríkismenningin: af hverju kemur Þjóðleikshúsið og Dansflokkurinn ekki meira út á land?
Sorglegt hvernig er komið fyrir leiklistinni, atvinnuleikhús vantar á svæðið.
Hof skiptir máli fyrir allt svæðið, eykur lífsgæðin á svæðinu. Ríkið á að styrkja menningarmálin með það að markmiði að efla menningarlíf á svæðinu.
Börnin á svæðinu alast ekki upp við að fara í atvinnuleikhús í sinni heimabyggð.
Hægt að tengja miklu meira landbúnað, menningu og ferðaþjónustu. 

Fyrirspurnir og umræður.

Sigurlaug Hanna Leifsdóttir benti á að sveitarfélögum þætti sjálfsagt að styrkja íþróttastarf en það væri alltaf hægt að klippa af leiklist og menningu fyrir börn. Tónlistarskóli væri það helsta sem væri í boði fyrir börn sem ekki stunda íþróttir. 

8.3. Málefnahópur um velferðarmál.

 1. Fjóla Valborg Stefánsdóttir, umræðustjóri
 2. Arnór Benónýsson
 3. Snorri Finnlaugsson
 4. Jóhanna Dögg Stefánsdóttir

Öldrunarmál.
Hin tíðu umskipti í stjórn landsins hafa komið sér illa fyrir öldrunarþjónustuna. Almenningur og stjórnendur hjúkrunarheimila heyra sömu loforðin fyrir hverjar kosningar. Allir vilji gera vel, en efndirnar eru minni. Fjöldi Íslendinga áttræðir og eldri mun nær þrefaldast fram til ársins 2050. Þá verða þeir 33 þúsund, en eru um 12 þúsund í dag. Stór hluti hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða eru að fara á eftirlaun og margir eru einnig að fara í önnur störf, til dæmis í ferðaþjónustunni. Opinberar tölur segja að biðlistinn eftir hjúkrunarrýmum sé nær 360 manns á landinu öllu. Margir telja þennan biðlista vanáætlaðan þar sem það er erfitt að fá færni- og heilsumat. Rýmum á hjúkrunarheimilum hefur fækkað frá hruni. Sveitarfélög og margir stjórnendur í öldrunarþjónustu telja að það þurfi að bæta við 160 rýmum árlega á næstu árum.  Nýlega hafa verið gerðir rammasamningar við öldrunarstofnanir en þar hafa kröfur um þjónustu ekki verið kostnaðarmetnar fyrirfram. Mikilvægt er að ábyrgð ríkisins sé skýr og nægt fjármagn fylgi verkefninu. Verkefni innan öldrunarmála munu halda áfram að vaxa. Nauðsynlegt er að Eyþing og sveitarfélögin standi saman í því að þrýsta á ríkið um meira fjármagn til stofnananna svo þær standi undir rekstrarkostnaði. Mikilvægt er að hlúa að eldra fólki í dreifðari byggðum með úrræðum eins og velferðartækni. 

Heilbrigðismál.
Mikilvægt er að standa vörð um og efla uppbyggingu Sjúkrahússins á Akureyri. Stefnt er að því að sjúkrahúsið verði háskólasjúkrahús. Það er mikið framfaramál fyrir svæðið og besta leiðin til að efla þjónustu og rannsóknir í heilbrigðisvísindum á Norðurlandi. Jafnframt leggjum við til að opnuð verði læknadeild við háskólann á Akureyri til að styrkja stöðu svæðisins. Afar nauðsynlegt er að tryggja nægilegt fjármagn til uppbyggingar og reksturs beggja stofnana. Skorum á nýkjörna alþingismenn að staðið verði við þau loforð sem gefin voru í kosningabaráttunni um að efla heilsugæslu um allt land.

Húsnæðismál.
Öruggt húsnæði er forsenda velferðar og því er mikilvægt að stuðla að því að nægt framboð af húsnæði sé í boði. Ljóst er að mikil eftirspurn er eftir húsnæði víða um land. Mikilvægt er að ríkið komi inn með beinum hætti og hjálpi hverju svæði fyrir sig.  Leggja þarf sérstaka áherslu á þau svæði þar sem byggingarkostnaður er hærri en söluverð.  Við viljum að fjármálastofnanir í landinu axli samfélagslega ábyrgð og hindri ekki uppbyggingu íbúðarhúsnæðis utan svokallaðra markaðssvæða með lánareglum sínum.

Félagsmál.
Tryggja þarf dreifðari byggðum aðgang að sérfræðiþjónustu og þar þarf ríkið að móta stefnu fyrir landið í heild. Ríkið þarf að koma inn með sértækum aðgerðum á borð við niðurgreiðslu námslána gegn vinnuframlagi í ákveðinn tíma svo dæmi sé tekið. Íbúum um land allt verður að geta staðið til boða að standa á eigin fótum og hafa kost á félagslegu húsnæði í sinni heimabyggð. Þá þarf ríkið að koma inn með beinum hætti s.s. með niðurfellingu virðisaukaskatts við byggingu félagslegs húsnæðis.
 

8.4. Málefnahópur um atvinnu- og umhverfismál.

 1. Þorsteinn Gunnarsson, umræðustjóri
 2. Ásta Fönn Flosadóttir
 3. Jón Stefánsson
 4. Sigurður Hlynur Snæbjörnsson
 5. Sóley Björk Stefánsdóttir
 6. Guðmundur B. Guðmundsson
 7. Helga Helgadóttir
 8. Siggeir Stefánsson.

Úrgangsmál.
Horfa á í víðara samhengi.
Dýraförgun, sumstaðar þarf að flytja dýrahræ yfir þrjár varnarlínur.
Litlar brennslur sem verið er að flytja hingað og þangað.
Molta – lífrænn úrgangur, þarf að samræma.
Hvað er verið að gera í nágrannalöndunum? Skoða kolefnisjöfnun.
Vantar lífræna flokkun í minni sveitarfélögum.

Fráveitumál.
Skilgreining á persónueiningum er umdeilanleg.
Heilbrigðiseftirlitið er ekki að dansa með og beitir ekki jafnræðisreglu.
Aðstoða þarf sveitarfélög fjárhagslega sem búa við viðkvæma viðtaka.
Það þarf fjárhagslega hvata fyrir sveitarfélög, t.d. vsk af.

Raforkumál.
Landsnet þarf að eiga meira samtal við landeigendur og mun fyrr. Þurfa að vera leiðir til að ná sáttum, t.d. gerðardómur eða sáttaferli.
Það þarf að straumlínulaga allt kæruferlið í tengslum við framkvæmdir t.d. á línulögnum, ekki sé hægt að kæra eftir að framkvæmdaleyfi er gefið út.
Vantraust hefur skapast. Ef allir vanda sig ætti að vera hægt að ná jafnvægi.
Afhendingaröryggi þarf að tryggja. Sambland af loftlínum og jarðstrengjum.
Vantar þriggja fasa rafmagn víða í sveitir.

Fiskeldi.
Umhugsunarvert að eitt fyrirtæki fái t.d. allan útreiknaðan „kvóta“ í Eyjafirði.
Ekki gefa afslætti af öryggis- og umhverfiskröfum.
Skiptar skoðanir.  Er verið að taka gæði af til framtíðar?
Lokaðar kvíar (segl) í sjó gætu hugsanlega sætt sjónarmið þeirra sem eru með og á móti.  Leysir fullt af vandamálum.
Þarf að rannsaka betur. 
Þarf að taka tillit til þeirra atvinnuvega sem fyrir eru.

Staða landbúnaðar.
Bregðast þarf við mikilli fjölgun á kanínum, sem orðnar eru að plágu.
Gerir sér enginn grein fyrir því hvað ástandið er alvarlegt? Gæti orðið meiri fækkun á næstunni verði ekkert að gert.
Það þarf NEYÐARAÐSTOÐ núna.
Það þarf að taka kerfið allt til endurskoðunar, þ.á.m. afurðastöðvarnar.
Á að miða landbúnaðarframleiðslu við innanlandsmarkað?
Það þarf stefnumörkum til lengri tíma.
Þetta er risastórt landsbyggðarmál, ríkið leiðrétti og aðstoði bændur, auki stuðning til bænda.
Það þarf að ráða alvöru markaðsfólk. 

8.5. Málefnahópur um samgöngumál.

 1. Sigurður Þór Guðmundsson, umræðustjóri
 2. Katý Bjarnadóttir
 3. Dagbjört Pálsdóttir
 4. Eiríkur H. Hauksson
 5. Eva Hrund Einarsdóttir
 6. Örlygur Hnefill Örlygsson
 7. Steinunn M. Sveinsdóttir

Hópurinn telur mikilvægt að rekið sé eitt flugvallakerfi á Íslandi og tekjur Isavia af Keflavíkurflugvelli verði nýttar til uppbyggingar á öðrum flugvöllum. Áríðandi er að litið sé til landsins alls í uppbyggingu innviða, sbr. slagorðið Allt Ísland allt árið. Líta má til norsku aðferðarinnar (Avinor).
Innanlandsflug er stór hluti af almenningsamgöngum á Íslandi og nauðsynlegt er að flugfargjöld séu á viðráðanlegu verði, þannig að flugsamgöngur sé raunverulegur valkostur fyrir íbúa svæðisins. Mikilvægt er að aðferð líkt og „skoska leiðin“ verði komið á og hið opinbera niðurgreiði flugfargjöld íbúa á skilgreindum svæðum. Nauðsynlegt er að íbúar landsbyggðanna eigi greiðan aðgang að þjónustu stofnana og fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu. Þá vill fundurinn að Eyþing sendi fulltrúa til fundar við vinnuhóp um rekstur flugsamgöngukerfis innanland og komi þessum sjónarmiðum til skila. 
Þá ítrekar fundurinn ályktun frá 2015 um að flugvöllur verði í Vatnsmýri í Reykjavík til að tryggja aðgengi sjúkraflugs að Landsspítala.
Umræðuhópurinn er sammála um að nauðsynlegt sé að almenningssamgöngur á landi séu valkostur fyrir íbúa Norðausturlands sem og ferðamenn á svæðinu. Allir eru sammála um að samningi við vegagerðina um rekstur strætó verði sagt upp og leitað verði annarra leiða til þess að tryggja reksturinn. Hópurinn telur ákjósanlegt að Samband íslenskra sveitarfélaga og ríkisvaldið ræði þessi mál og sameiginleg niðurstaða fáist.
Hópurinn leggur áherslu á að tryggt verði fjármagn til þess að ljúka við gerð Dettifossvegar, stækkun flughlaðsins á Akureyri og að lagt verði bundið slitlag á vegi um Brekknaheiði og Langanesströnd. Betra sé að leggja áherslu á færri verkefni í einu.
Hópurinn ítrekar ályktun á aðalfundi Eyþings frá árinu 2015 um mikilvægi flugsamgangna til og frá Þórshöfn, Vopnafirði, Húsavík og Grímsey. 

Þá tók hópurinn til umræðu reynsluna af því að sitja í sveitarstjórn.
Reynslan skiptir miklu máli svo að samfella í rekstri einstakra málaflokka sé tryggð og að stefnumörkun sé ákveðin af kjörnum fulltrúum en ekki einstökum starfsmönnum sveitarfélaga.
Endurnýjun er að sama skapi nauðsynleg. Mikilvægt er að reynsla og upplýsingar berist á milli „kynslóða“ í stjórnum og ráðum með leiðbeiningum frá reynslumeiri fulltrúum, þvert á pólitískar línur, og starfsmönnum, handbókum og öðrum leiðum. Eðlilegt endurnýjunarhlutfall er um 25-35% við hverjar kosningar. Ef hlutfallið er hærra er full ástæða til að þess að leggjast í greiningar á því hvers vegna sveitastjórnarfólk gefur ekki kost á sér til áframhaldandi starfa.
Hópurinn er sammála um að það sem hafi komið mest á óvart sé hversu viðamikið starf sveitarstjórnarfulltrúa er utan hefðbundinnar fundarsetu í sveitarstjórn, nefndum og ráðum. Til að gera þátttöku í sveitarstjórn eftirsóknarverðari þarf að bæta kjör og starfsumhverfi sveitarstjórnarfulltrúa. Sveitarstjórnarmenn þurfa að vera ófeimnir við að taka þann slag. 

8.6. Endurskoðandi.
Silja Dögg Baldursdóttir formaður kjörnefndar lagði til að Enor ehf. yrði áfram endurskoðandi Eyþings.
Samþykkt samhljóða. 

8.7. Ákvörðun um fundarstað næsta aðalfundar.
Þorsteinn Gunnarsson sveitarstjóri Skútustaðahrepps tók til máls og bauð alla velkomna til Skútustaðahrepps á næsta ári. 

9.       Önnur mál.
Siggeir Stefánsson lagði til að farið yrði í innri greiningu á Eyþingi, bæði við sjálf og með utanaðkomandi hjálp á jákvæðum nótum. Með áherslu á að gera gott betra og gera Eyþing sýnilegra og betra fyrir okkar íbúa. Hann vísaði í nefnd sem starfaði 2012-2013 sem lagði m.a. til stofnun fulltrúaráðs.

Steinunn María orðaði tillöguna eftirfarandi:

Aðalfundur beinir til stjórnar Eyþings að farið verði í rýni og greiningu á innra starfi bæði af Eyþingi sjálfu og utanaðkomandi aðila.
Samþykkt samhljóða.

Guðmundur Baldvin fór yfir tillögu að ályktun fundarins. Ályktunin var samþykkt samhljóða með ákveðnum orðalagsbreytingum. 

Ályktun

Aðalfundur Eyþings, haldinn 10. og 11. nóvember 2017, í Fjallabyggð samþykkir eftirfarandi ályktun: 

Almenningssamgöngur
Samningar um rekstur almenningssamgangna á vegum landshlutasamtakanna renna út á árinu 2018.  Aðalfundur Eyþings telur ekki grundvöll fyrir áframhaldandi rekstri nema til komi stóraukið framlag frá ríkinu til rekstrarins.  Felur aðalfundur stjórn Eyþings að nýta uppsagnarákvæði samningsins.

Þá fagnar aðalfundurinn framkomnum hugmyndum um niðurgreiðslu á innanlandsflugi og skorar á stjórnvöld að fylgja því máli eftir. 

Samgönguáætlun
Mikilvægt er að tryggja fjármagn til áframhaldandi uppbyggingar samgöngumannvirkja í landshlutanum.  Fundurinn leggur sérstaka áherslu á að tryggt verði fjármagn til að klára Dettifossveg og til uppbyggingar á flughlaði á Akureyrarflugvelli.

Auk þessa ítrekar fundurinn áður framkomnar ályktanir Eyþings um mikilvægi þess að koma uppbyggingu vegar um Langanesströnd og Brekknaheiði með bundnu slitlagi inn á framkvæmdaáætlun. 

Orkumál
Ástand í orkumálum á Norðurlandi eystra er algjörlega óviðunandi. Ráðast þarf í stórátak í endurnýjun og styrkingu dreifikerfis raforku landsins til að bæta samkeppnisstöðu atvinnulífs í landshlutanum. Mikilvægt er að stjórnvöld skýri reglur og markmið og stuðli að betri sátt um uppbyggingu dreifikerfis raforku. 

Menntamál
Mikilvægt er að auka fjárveitingar til iðn- og tæknináms bæði á framhalds- og háskólastigi á svæðinu og stuðla að kynningu á iðn- og tækninámi á grunnskólastigi. Fundurinn skorar á stjórnvöld að stuðla að læknanámi við Háskólann á Akureyri. 

Heilbrigðismál
Brýnt er að hefja byggingu legudeilda við Sjúkrahúsið á Akureyri sem er lykillinn í að viðhalda og byggja upp þjónustu sjúkrahússins. Jafnframt er mikilvægt að tryggja fjármagn til að efla heilsugæslu og geðheilbrigðsþjónustu í nærsamfélaginu. 

Öldrunarmál
Tryggja þarf fjármagn til reksturs hjúkrunarheimila og að daggjöld séu miðuð við þær kröfur sem gerðar eru til rekstrarins. 

Sóknaráætlanir landshluta
Sóknaráætlanir hafa sannað sig sem öflugt verkfæri í byggðamálum. Mikilvægt er að stjórnvöld hviki ekki frá því verklagi sem í þeim felst. 

Atvinnumál
Brýnt er að grípa þegar í stað til aðgerða vegna stöðu sauðfjárræktar í landinu.  

Menningarmál
Leitað verði leiða til að auka aðgengi barna og ungmenna að menningu og listum bæði innan veggja skóla og í tómstundum. 

10.   Samtal við nýkjörna þingmenn Norðausturkjördæmis.

Þingmennirnir Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Kristján Þór Júlíusson og Líneik Anna Sævarsdóttir sátu fyrir svörum. Bjarkey Gunnarsdóttir forfallaðist óvænt en aðrir þingmenn höfðu boðað forföll. Ólafur Rúnar Ólafsson sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar stýrði umræðum.

Fyrirspurnir um eftirfarandi komu fram:

 • Hvernig sjá þingmenn það fyrir sér að námsframboð í dreifbýli sé fjölbreytt og hvernig er hægt að tryggja rekstur fámennra námsbrauta og framhaldsskóla?
 • Eru þingmenn tilbúnir til að beita sér fyrir því að fjármálastofnanir í eigu ríkisins móti reglur til að auðvelda byggingu íbúðarhúsnæðis utan markaðssvæða og til að fella niður virðisaukaskatt af byggingu húsnæðis utan markaðssvæða?
 • Hvað ætlið þið að gera í bráðavanda sauðfjárbænda?
 • Þarf ekki að straumlínulaga allt kæruferlið í tengslum við framkvæmdir t.d. á línulögnum, þannig að ekki sé hægt að kæra eftir að framkvæmdaleyfi er gefið út?
 • Hver er ykkar afstaða til niðurgreiðslna á innanlandsflugi og að tekjur Isavia af Keflavíkurflugvelli verði nýttar til uppbyggingar á öðrum flugvöllum? 

Steinunn María þakkaði fundarmönnum fyrir fundinn og fyrir komuna. Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri Fjallabyggðar bað fyrir góðar kveðjur.

Fyrir hönd stjórnar Eyþings þakkaði Guðmundur Baldvin starfsmönnum Eyþings fyrir unnin störf. Hann þakkaði Fjallabyggð fyrir að taka vel á móti fundarmönnum og óskaði öllum góðrar heimferðar.

 

Fundi slitið kl. 14:00.

  

Fyrirlesarar:
Matthildur Kr. Elmarsdóttir, skipulagsráðgjafi

 

Skráðir gestir:

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, alþingsmaður Norðausturkjördæmis.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, alþingismaður Norðausturkjördæmis.
Eiríkur B. Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrarbæjar.
Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Jón Gunnarsson, samgöngu-og sveitarstjórnarráðherra.
Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra og alþingismaður Norðausturkjördæmis.
Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Norðausturkjördæmis.
Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður Norðausturkjördæmis.
Sigmundur Einar Ófeigsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar.
Steingrímur J. Sigfússon, alþingismaður Norðausturkjördæmis.
Ólafur Hjörleifsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
Ólafur Rúnar Ólafsson, sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar.
Reinhard Reynisson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga
Vigdís Ósk Häsler, aðstoðamaður samgöngu-og sveitarstjórnarráðherra.
Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður Norðausturkjördæmis. 

Starfsmenn og embættismenn:

Alfreð Schiöth, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra.
Linda Margrét Sigurðardóttir, verkefnastjóri Eyþing.
Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings. 

 

Fulltrúalisti 2017 

 

Sveitarfélag

 

Aðalfulltrúar

 

Varafulltrúar

Fjallabyggð

 

Gunnar I Birgisson

X

Valur Þór Hilmarsson

Fjallabyggð

X

Steinunn M Sveinsdóttir

 

Hilmar Þór Hreiðarsson

Fjallabyggð

 

S. Guðrún Hauksdóttir

X

Helga Helgadóttir

Fjallabyggð

 

Hilmar Þór Elefsen

 

Jón Valgeir Baldursson

Dalvíkurbyggð

X

Heiða Hilmarsdóttir

 

Íris Hauksdóttir

Dalvíkurbyggð

X

Bjarni Th. Bjarnason

 

Pétur Sigurðsson

Dalvíkurbyggð

 

Gunnþór E Gunnþórsson

 

Haukur Gunnarsson

Dalvíkurbyggð

X

Kristján E Hjartarson

 

Valdís Guðbrandsdóttir

Hörgársveit

X

Snorri Finnlaugsson

 

Axel Grettisson

Hörgársveit

X

Jón Þór Benediktsson

 

Ásrún Árnadóttir

Akureyrarbær

X

Sigríður Huld Jónsdóttir

 

Árni Óðinsson

Akureyrarbær

 

Matthías Rögnvaldsson

 

Anna Hildur Guðmundsdóttir

Akureyrarbær

X

Silja Dögg Baldursdóttir

 

Víðir Benediktsson

Akureyrarbær

X

Guðmundur Baldvin Guðmundsson

 

Siguróli Magni Sigurðsson

Akureyrarbær

 

Ingibjörg Ólöf Isaksen

 

Halldóra Kristín Hauksdóttir

Akureyrarbær

X

Dagbjört Pálsdóttir

 

Ólína Freysteinsdóttir

Akureyrarbær

X

Gunnar Gíslason

 

Baldvin Valdemarsson

Akureyrarbær

X

Eva Hrund Einarsdóttir

 

Þórunn Sif Harðardóttir

Akureyrarbær

X

Preben Jón Pétursson

X

Sóley Björk Stefánsdóttir

Eyjafjarðarsveit

X

Jón Stefánsson

 

Hólmgeir Karlsson

Eyjafjarðarsveit

X

Jóhanna Dögg Stefánsdóttir

 

Halldóra Magnúsdóttir

Eyjafjarðarsveit

X

Sigurlaug Hanna Leifsdóttir

 

Kristín Kolbeinsdóttir

Svalbarðsstrandarhr.

X

Eiríkur H Hauksson

 

Halldór Jóhannesson

Svalbarðsstrandarhr.

X

Valtýr Hreiðarsson

 

Ólafur Rúnar Ólafsson

Grýtubakkahreppur

 

Þröstur Friðfinnsson

X

Fjóla Valborg Stefánsdóttir

Grýtubakkahreppur

X

Ásta Fönn Flosadóttir

 

Sigurbjörn Jakobsson

Þingeyjarsveit

X

Arnór Benónýsson

 

Árni Pétur Hilmarsson

Þingeyjarsveit

 

Margrét Bjarnadóttir

X

Dagbjört Jónsdóttir

Þingeyjarsveit

 

Ragnar Bjarnason

X

Sigurður Hlynur Snæbjörnsson

Skútustaðahreppur

X

Yngvi Ragnar Kristjánsson

 

Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir

Skútustaðahreppur

X

Þorsteinn Gunnarsson

 

Böðvar Pétursson

Norðurþing

X

Sif Jóhannesdóttir

 

Óli Halldórsson

Norðurþing

X

Örlygur Hnefill Örlygsson

X

Kristján Þór Magnússon

Norðurþing

X

Gunnlaugur Stefánsson

 

Soffía Helgadóttir

Norðurþing

 

Jónas Einarsson

 

Kjartan Páll Þórarinsson

Norðurþing

X

Olga Gísladóttir

 

Friðrík Sigurðsson

Tjörneshreppur

X

Katý Bjarnadóttir

 

Sveinn Egilsson

Svalbarðshreppur

X

Sigurður Þór Guðmundsson

 

Sigurður Jens Sverrisson

Langanesbyggð

X

Elías Pétursson

 

Þorsteinn Ægir Egilsson

Langanesbyggð

X

Siggeir Stefánsson

 

Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir

Rétt til setu á aðalfundinum 2017 áttu 40 kjörnir fulltrúar, sjá ofangreinda töflu. Alls mættu 37 fulltrúar frá 13 sveitarfélögum.