Fundargerð - Aukaðalfundur 9. apríl 2019

17.04.2019

Auka-aðalfundur Eyþings

Hótel KEA Akureyri kl. 13:00
9. apríl 2019
Fundargerð

Auka-aðalfundur Eyþings var haldinn í samræmi við ákvörðun aðalfundar Eyþings sem haldinn var þann 21. og 22. september 2018. Efni fundarins var að ræða viðræður um sameiningu Eyþings og atvinnuþróunarfélaganna á svæðinu og niðurstöðu starfshóps um form samstarfs og samvinnu þessara þriggja aðila á sviði atvinnu- og byggðamála til framtíðar.

Þriðjudagur 9. apríl

Fundarsetning kl. 13:00.

Formaður Eyþings, Hilda Jana Gísladóttir, setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna fyrir hönd stjórnar.

Starfsmenn fundarins.

Hilda Jana lagði til að fundarstjóri og ritarar fundarins yrðu:

Fundarstjóri:

Ólafur Rúnar Ólafsson.

Fundarritarar:

Sóley Björk Stefánsdóttir.

Helgi Héðinsson.

Ráðinn fundarrritari: Vigdís Rún Jónsdóttir.

Ólafur Rúnar tók við fundarstjórn og leitaði afbrigða frá lögum félagsins og útsendri dagskrá þannig að dagskrá yrði eftirfarandi og í 12 liðum. Samþykkt var án andmæla að við dagskrá bættust tveir liðir. Ólafur bauð Hildu Jönu að kynna skýrslu stjórnar.

1. Skýrsla stjórnar.

Hilda Jana Gísladóttir, formaður stjórnar Eyþings, flutti samantekt á skýrslu stjórnar, sem sjá má á heimasíðu Eyþings.

Helstu efni skýrslunnar voru þessi:

  • Starfsmannamál
  • Almenningssamgöngur
  • Sóknaráætlun Eyþings
  • Stefnumótandi byggðaáætlun
  • Hlutverk landshlutasamtakanna
  • Ýmis verkefni Eyþings

Fyrirspurnir og umræður:

Ólafur Rúnar fundarstjóri tók til máls og bauð frummælendum til umræðna.

Þröstur Friðfinnsson lýsti yfir vonbrigðum að ekki hafi náðs samningar um starfslok við fyrrverandi framkvæmdarstjóra Eyþings og lýsti yfir vilja til að aðstoða við að ná viðunandi samningum. Þröstur óttaðist að ef kæmi til málaferla vegna uppsagnar á samningi við fyrrverandi framkvæmdarstjóra yrði það dýrkeypt fyrir Eyþing.

2. Þóroddur Bjarnason, formaður starfshóps um sameiningarviðræður Eyþings og atvinnuþróunarfélaganna, fer yfir stöðu viðræðna.

Þóroddur lagði fram tillögu starfshóps um endurskipulagningu landshlutasamtaka og atvinnuþróunarfélaga á Norðurlandi eystra. Tillagan er hugsuð sem rammi til frekari útfærslu. Tillagan hafði ekki verið borin upp til samþykktar hjá stjórnum félaganna.

Þóroddur fór yfir hugmyndafræðina sem lá að baki tillögunni sem snýr að því að endurspegla ólíkar byggðir; Akureyri, stærri kjarna, minni kjarna og strjálbýli.

Hann taldi ekki nóg að ætla sér að nota bara Skype heldur yrði að vera mjög góð og trygg tækniþjónusta sem væri grundvöllur samvinnunnar. Þóroddur lagði mikla áherslu á að starfsfólk nýrrar stofnunar yrði staðsett víðs vegar um svæðið til að viðkomandi yrði hluti af samfélaginu sem verið væri að þjóna. Þetta gæti orðið tækifæri fyrir félagið til að sýna fram á að þjónustustofnun þyrfti ekki að vera staðsett þar sem fólksfjöldinn væri mestur. Hann taldi Eyþing geta orðið mun öflugri stoðstofnun fyrir svæðið en raunin væri núna. Hann lagði áherslu á að ný stofnun ætti ekki að vera þriðja stjórnsýslustigið heldur stoðstofnun fyrir svæðið. Jafnframt lagði hann til að formenn stjórna AÞ, AFE og Eyþings sitji í starfshópnum.

Tillagan er svohljóðandi: Auka-aðalfundur Eyþings haldinn á Akureyri 9. apríl samþykkir að undirbúa stofnun nýs félags sem taki við verkefnum Eyþings, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Atvinniþróunarfélags Eyjafjarðar. Verkefnistillöguna í heild má nálgast hér.

3. Dagbjört Pálsdóttir, formaður stjórnar AFE, fer yfir stöðu viðræðna um endurskipulagningu.

Dagbjört las upp ályktun stjórnar atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar um málið og lagði áherslu á að fyrir fundinum lægi fyrir að samþykkja að formfesta framhaldið og því þyrfti að kryfja málið til mergjar á fundinum. Hún lýsti því yfir að atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar horfði jákvæðum augum á sameiningarferlið sem væri hafið. Hún benti á að atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar hefði óskað eftir samrekstri við Eyþing og að ályktun þeirra væri fyrsta skrefið í átt að sameiningu við Eyþing. Þau lögðu áherslu á samleggðaráhrif, sparnað og hagnýtingu. Dagbjört upplýsti að stjórnarformaður og stjórn Eyþings funduðu í ágúst 2018 og að fundað hefði verið í framhaldinu við stjórn AÞ en ferlið hefði gengið hægt. Hún telur að vilji AFE sé að vinna verkefnin sem heild en ekki sem þrjú félög, þau vilja einblína á kostina, s.s. Vaðlaheiðargöng. Hún benti þó á að tillagan hafi ekki hlotið umræðu innan stjórnar AFE fyrr en nú.

4. Elías Pétursson, formaður stjórnar AÞ, fer yfir stöðu viðræðna um endurskipulagningu.

Elías sagði að stjórn atvinnuþróunarfélags Þingeyinga hafi falið framkvæmdastjóra og formanni að funda með öllum sveitarstjórnum á svæðinu.  Hann lagði áherslu á að gæta þurfi hagsmuna jaðarbyggða, horfa til landfræðilegrar miðju ekki síður en lýðfræðilegrar og horfa til aðkomu atvinnulífsins. Hann taldi jafnfram mikilvægt að tryggja breiða sátt með minni- og meirihlutavernd. Niðurstaða AÞ var sú að ganga til viðræðna um kosti og galla sameiningar félaganna.

Kaffihlé 14:20-14:40

5. Umræður um endurskipulagningu landshlutasamtaka og atvinnuþróunarfélaga.

Fyrirspurnir og umræður:

Ólafur Rúnar fundarstjóri tók til máls og bauð frummælendum til umræðna.

Þorsteinn Gunnarsson fagnaði þeirri umræðu sem fór fram á fundinum og þeirri tillögu sem fyrir liggur. Hann benti á að landshlutasamtök væru frjáls félagasamtök og að sveitarfélög væru frjáls að sinni aðild að þeim þó öll sveitarfélög landsins væru nú í slíkum samtökum. Hann benti jafnframt á að landshlutasamtökin hefðu þróast á ýmsan hátt eftir þeim verkefnum sem þau sinntu. Hann taldi að rekstur almenningssamgangna hefði reynst landshlutasamtökum þungur fjárhagslega og taldi að samtökin ættu ekki að standa í rekstri heldur vera pólitískt afl á svæðinu. Þorsteinn fagnaði því að á síðasta aðalfundi hafi hafist stefnumótunarvinna til næstu fjögurra ára, hann velti þó fyrir sér hver tilgangur landshlutasamtakanna verður ef miklar sameiningar munu eiga sér stað á svæðinu. Hann fagnaði því samtali sem átti sér stað milli stjórnar AÞ og sveitarfélaga á svæðinu og taldi allt svæðið vilja ganga til sameiningar. Þorsteinn vísaði til reynslu sinnar á Reykjanesi þar sem mikið og viðtækt samstarf hefur gefið góða raun. Eins vísaði hann til reynslu á suðurlandi þar sem starfsstöðvar eru margar og víða. Að lokum lýsti hann yfir eindreginni afstöðu til samþykktar á fyrirliggjandi tillögu.

(Fundarstjóri lét mætingarblað ganga um salinn)

Hjálmar Bogi taldi óheppilegt að tiltaka fjölda starfsstöðva, staðsetningu þeirra og aðalskrifstofu og taldi að það mætti jafnvel sleppa þeirri klausu. Hann taldi gott að fulltrúaráð héraðsnefndar þingeyinga myndi hittast og ræða þetta mál. Hann velti jafnframt vöngum yfir því hvort hann ætti að koma með tillögu um niðurfellingu klausunnar eða hvort það yrði tækifæri til þess í framhaldinu.

Katrín Sigurjónsdóttir sagði að ljóst hefði verið frá upphafi að fullur vilji væri hjá Eyfirðingum að fara þessa leið en ítrekaði að sú tillaga sem fyrir fundinum lægi hefði komið frá stýrihópi verkefnisins. Hún taldi mikilvægt að leita hagræðis og ekki endilega rétt að binda sig við fjórar starfsstöðvar, hugsanlega væri betra að hafa tvær sterkar stöðvar og svo yrðu ákveðin störf skilgreind án staðsetningar. Að lokum sagði hún að fullur vilji væri hjá Dalvíkurbyggð að semeingarviðræðurnar héldu áfram og skiluðu sér í sterkara félagi.

Silja Jóhannesdóttir hvatti starfshópinn til að kynna sér vel önnur landshlutasamtök og hvernig hlutir væru skipulagðir annars staðar, bæði kosti og galla. Hún benti á vísi að greiningu í skýrslu RHA en taldi að mun meiri þekking fengist með því að ræða við stjórnendur og starfsfólk annars staðar. Hún nefndi að hún hefði verið í verkefnum með AFE og hefði því reynslu af þeim styrk sem fælist í því að starfa saman. Silja benti á að svæðið hefði staðið saman um nokkur verkefni fyrir fund með þingmönnum sem hefði gefist vel. Silja studdi fleiri en eina starfsstöð en taldi þó að varast þyrfti of mikil samþjöppun hjá starfsfólki.

Bergur Elías Ágústsson taldi að félögin væru að fara í svipað líkan og hjá SSNV og Suðurlandi og benti á að hann þekkti hvoru tveggja nokkuð vel. Hér stangist þó á sjónarmið um hagræðingu og tengsl við grasrótina. Hann benti á að hjá SSNV væru fjórar starfsstöðvar; Skagaströnd, Blönduósi, Hammstanga og Sauðárkróki og það sama hafi gerst á suðurlandi. Hann benti á að höfuðstöðvar snúis fyrst og fremst um skráningu lögheimilis, þangað sem reikningar eru sendir, og skipti því ekki höfuðmáli. Hann sagðist ekki hafa tekið afstöðu til þess hvort ganga ætti þessa leið, til þess þyrfti meira kjöt á beinin. Hann upplýsti að austan megin hefðu aðilar frá atvinnulífinu og stéttarfélögunum ekki verið hrifnir af sameiningarhugmyndum því hætta væri á að þeirra rödd hyrfi frá borðinu og taka þyrfti tillit til þess. Hann skildi ekki hvers vegna þyrfti að stofna nýtt félag, félagið væri til staðar og að ekkert væri til  fyrirstöðu að nýta það. Bergur taldi að vegna hagræðingar væri hægt að verja meira fé til að halda úti dreifðari starfssemi og taldi mikilvægt að starfsstöðvarnar væru skilgreindar.

Kristján Þór Magnússon taldi umræðu fundarins mikilvæga. Hann benti á að hann sæti í stýrihópnum sem lagði tillöguna fram og hefði viljað sjá málið unnið lengra og að formgerðari tillaga lægi fyrir fundinum. Kristjáni fannst mjög mikilvægt að nýta þá jákvæðu strauma sem hafa verið á svæðinu síðustu ár og taldi mikilvægt að fylgja eftir þeim tækifærum sem koma í kjölfar opnunar Vaðlaheiðarganga. Hann taldi að það ætti ekki að fara í þessa vegferð til að spara fé heldur til að fá meira út úr samstarfinu en gert væri í dag. Kristjáni fannst mikilvægt að skilgreina hvað fælist í orðinu starfsstöð og sá ekki fyrir sér að geta samþykkt tillögu sem gerði ráð fyrir aðeins tveimur starfsstöðvum. Hann lagði áherslu á að allir þyrftu að hafa sama skilning á því hvað skilgreinir starfsstöð og taldi táknrænt og mikilvæg skilaboð að staðsetja aðalskrifstofu utan Akureyrar, og benti á að þetta hefði verið og ætti að vera nærþjónusta.

Þröstur Friðfinnsson taldi mikilvægt að skilgreina hvað fælist í orðinu starfsstöð og taldi mikilvægt að þétta raðirnar frekar en að dreifa kröftunum. Hann hélt að verið  væri að fara úr 3 starfsstöðvum í 2 og fannst galli að tillögurnar hefðu ekki verið ræddar í stjórnum félaganna. Þröstur upplýsti að sveitarstjórn Grýtubakkahrepps hefði bókað að hún styddi sameininguna en taldi tillöguna ekki ná þeim markmiðum sem stefnt var að. Hann benti á að forsendan hefði ekki verið að draga saman og hagræða heldur að efla stafsemina. Þröstur óttaðist að vinnan væri komin styttra á veg en vænt var og að lengri leið væri eftir en talið var. Hann taldi ekki jákvætt að binda ákvörðun af fjórum starfsstöðvum áður en lengra yrði haldið.

Sigurður Guðmundsson upplýsti að hann sæti í starfshópnum sem stendur á bak við tillöguna. Hann trúði því að tillagan væri þess eðlis að allir ættu að geta samþykkt hana en lagði áherslu á að tillagan væri málamiðlun en endurspeglaði ekki fullkomlega vilja hvers og eins. Sigurður taldi mikilvægt að hafa ákvæði í samþykktum sem kæmi í veg fyrir að stafsemin þjappaðist saman á Akureyri. Hann taldi að eins og samtökin væru starfrækt núna þá væri aðkoma kjörinna fulltrúa takmörkuð og það þyrfti að laga. Það þyrfti jafnframt að ákveða stefnumótandi vettvang sem væri kjarninn í starfseminni. Sigurður lagði áherslu á að mikilvægt væri að starfsfólkið dreifðist um svæðið og taldi sameininguna verða til verulegra bóta á starfsemi Eyþings. Hann telur að Eyþing hafi ekki ætlað aðalfundi og fulltrúaráði það stefnumótandi  hlutverk sem það ætti að vera og telur mikilvægt að hafa í huga að Eyþing séu frjáls félagasamtök og byggist á því að sveitarfélögin vilji vera með.

Tillaga sveitarstjórnar Svalbarðshrepps var sú að það þurfi skýrar línur hvernig félagið verið rekið svo hættan verði ekki að öll starfsemin endi á Akureyri. Hann taldi að það þyrfti að efla stefnumótandi afl sem ætti að vera leiðandi afl í starfsstöðinni og fannst mikilvægt að starfsstöðvarnar yrðu fleiri en færri. Hann taldi sameininguna til bóta fyrir svæðið og taldi starfsmenn Eyþings of fáa til að geta náð utan um öll verkefnin. Að lokum betni hann á að sveitarfélögin þyrftu að hafa vilja til að taka þátt í sameiningunni.

Halla Björk taldi að ávinningurinn gæti orðið meiri við sameininguna og að samtökin og landshlutinn myndu eflast. Halla vildi fá að vita hvort hægt væri að flýta vinnunni og hvort hægt væri að klára ferlið fyrr en ráðgert væri í núverandi tillögu. Halla tók undir að mikilvægt væri að starfsfólkið andaði að sér loftinu víða um svæðið en spurði hvernig það yrði útfært þegar starfsfólk í verkefnum brothættra byggða lyki sínum störfum.

Jóna Björg taldi giftusamlegt að hafa farið í samtal við sveitarstjórnir á svæðinu um málið og taldi að það hefði verið komið vel til móts við ábendingar sem þar komu inn. Jóna taldi ekki þurfa að skilgreina aðalstöð heldur væri það tæknilegt útfærsluatriði. Hún taldi verkefnið ekki eigi að snúast um hagræðingu og straumlínulögun heldur eflingu og aukin sóknarfæri og benti á að nýtt félag yrði sterkari bakhjarl sveitarfélaga á svæðinu.

Arnór Benónýsson taldi ekki vænlegt að hægja á ferlinu. Honum fannst meiri núningur á fundinum en hann átti von á miðað við stemninguna á fulltrúaráðsfundinum. Hann taldi mikilvægast að samþykkja fyrstu og síðustu málsgrein tillögunnar og að restin gæti fylgt sem greinargerð og niðurstaða starfshóps. Hann taldi að ekki mætti tefja ferlið meira heldur þyrfti að taka næsta skref. Hann taldi mikilvægt að virkja fulltrúaráðið og að það kæmi að vinnu stýrihópsins sem nú tæki við svo menn gætu stigið skrefin áfram í takt.

Elías Pétursson vildi meina að tillagan væri stefnumörkun sem snéri að því að hafa starfsemina dreifða, hver svo sem fjöldi starfstöðvanna yrði að lokum. Hann taldi það skýran vilja að starfemin yrði dreifð um svæðið. Hann taldi mikilvægt að menn ástunduðu ekki sömu orðræðu og höfuðborgarsvæðið þegar kæmi að umræðu um störf án staðsetningar. Hann benti á að mikilvægt væri að setja girðingar sem kæmu í veg fyrir að jaðarbyggðir einangruðust. Að lokum taldi hann tækifæri felast í endurskoðun á hlutverki landshlutasamtakanna ef vilji væri fyrir sameiningarferlinu.

Eva Hrund taldi Eyþing vera gríðarlega flókið fyrirbæri og að mikil tímasóun væri oft í starfinu. Hún var ánægð með þá þróun sem nú væri í gangi og taldi að menn myndu ná meiri slagkrafti með því að sameina félögin og fjölga starfsfólki. Hún taldi atvinnuþróunarfélögin geta margt lært hvort af öðru og tali mikilvægt að fá upplýsingar um kostnaðinn. Eva sagðist finna fyrir jákvæðni frá ráðherrum vegna þess að sveitarfélögin á svæðinu töluðu sama máli. Hún benti á að fjöldamörg mál væru sameiginleg á svæðinu og að sveitarstjórnir ættu að vera duglegar að senda sín á milli og standa saman um stuðning, hún nefndi málefni Aflins í því tilliti.

Siggeir Stefánsson, sem er búsettur á Langanesbyggð, benti á að þar væru ákveðnar áhyggjur af því að þróunin yrði sú að Akureyri myndi gleypa allt. Hann kvað þá  upplifa ákveðna jaðarsetningu innan atvinnuþróunarfélgs Þingeyinga og að þeir hefðu  áhyggjur af því að það gæti orðið verra eftir sameiningu. Hann upplýsti þó að þeir ætluðu að standa með sameiningunni væri hún gerð á þeim forsendum að tryggja stuðning við allt svæðið. Honum fannst Eyþing hafa eflst á síðustu árum og að nú væru enn meira tækifæri til eflingar og að það væri það sem menn ættu að stefna að. Hann taldi fleiri tækifæri felast í því að sameinast en að halda áfram óbreytt, það gæti skilað meiru að hafa færri og stærri verkefni og að sækja aukið fjármagn til ríkisins á þeim forsendum. Hann spurði hvort Eyþing ætti ekki að búa til framtíðarsýn fyrir svæðið og hvernig það ætlaði að komast þangað? Siggeir taldi það aðalatriðið og vildi drífa í sameiningu.

Þóroddur Bjarnason benti á að verkefnið væri ekki auðvelt enda væri þá löngu búið að klára það. Hann benti á að tvö sjónarmið tækjust á og að bæði væru réttmæt; fólkið á jöðrunum hefði rökstuddar áhyggjur og fólkið í kjörnunum hefði takmarkaða þolinmæði á hversu langt það ætti að beygja sig. Hann taldi að ef ákvörðunin um girðingar yrði frestað þar til í lok ferlisins gæti ferlið klúðrast og að ef vinnan gengi ekki upp og niðurstaðan yrði tvenn landshlutasamtök, þá væri betra að það gerðist sem fyrst.

6. Ályktun stjórnar um viðræður um sameiningu Eyþings og atvinnuþróunarfélaganna lögð fram. 

Formaður Eyþings, Hilda Jana, taldi mikilvægt að kjarna strax hverjar ákvarðanir væru sem þyrfti að taka til að vera viss um að breytingin færi í gegn. Hún mælti gegn því að farið yrði í mikla vinnu og kostnað til einskis. Hún benti á að ákveðið hefði verið að leggja til að nýtt félag yrði stofnað til að byrja með autt blað í þessari vinnu og að gerð nýrrar sóknaráætlunar yrði sú stefnumótun sem unnin yrði fyrir svæðið á vettvangi Eyþings. Sú vinna myndi hefjast með fulltrúaráði og í kjölfarið yrði fundur með almenningi og hagaðilum. Hún taldi að taka þyrfti mið af því sem gengið hefði vel og lagði til að fundurinn annað hvort samþykkti ályktunina eins og hún var lögð til eða að farið yrði aftur að teikniborðinu. Hún benti áð að klára þyrfti verkið fyrir 15. nóvember en ekkert væri því til fyrirstöðu að vinna hraðar, það þyrfti að vanda verkið en það þyrfti að hefjast strax.

7. Atkvæðagreiðsla um ályktun stjórnar um viðræður um sameiningu Eyþings og atvinnuþróunarfélaganna.

Tillagan var borin upp til atkvæða og samþykkt með 35 greiddum atkvæðum og 1 mótatkvæði.

8. Skipunarbréf stýrihóps um áframhaldandi endurskipulagningu Eyþings og atvinnuþróunarfélaganna.

Aukaaðalafundur fól framkvæmdarstjóra að ganga frá skipunarbréfi vegna áframhaldandi sameiningarvinnu í samræmi við umræður fundarins. Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. 

9. Þóknun til nefnda og ráða.

Formaður Eyþings kynnti viðbót við starfsreglur stjórnar, sem stjórn Eyþings hefur samþykkt. Um er að ræða nýjar reglur um þóknun til starfshópa sem og skrifaðar reglur um þóknun til nefnda og ráða í samræmi við þær venjur sem tíðkast hafa. Starfsreglur stjórnar má finna á heimasíðu félagsins.

10. Tillaga frá síðasta aðalfundi um fjölgun í stjórn Eyþings.

Aðalfundur samþykkti að fresta breytingum á stjórnskipan félagsins til heildarendurskoðunar á félaginu. Málsmeðferðartillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

11. Tillaga um uppsögn á samningi um bókasafnsþjónustu.

Aðalfundur samþykkti uppsögn á gildandi samningi Eyþings um bókasafnsþjónustu Háskólans á Akureyri, en uppsagnarfrestur er 1 ár. Aðalfundur fól stjórn að kanna önnur möguleg samstarfsverkefni við Háskólann. Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

12. Ákvörðun um fundarstað næsta aðalfundar.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, tilkynnti að næsti aðalfundur yrði haldinn á Dalvík og dagsetning yrði tilkynnt fljótlega.

Samþykkt samhljóða.

Fundi slitið kl. 16:20.

Aðalfundarfulltrúar 2018-2020 Sveitarfélag  Mæting
Aðalsteinn J. Halldórsson Tjörneshreppur X
Andri Teitsson Akureyrarbær X
Arnór Benónýsson Þingeyjarsveit X
Axel Grettisson Hörgársveit X
Ásta Arnbjörg Pétursdóttir Eyjafjarðarsveit X
Árni Pétur Hilmarsson Þingeyjarsveit X
Björg Erlingsdóttir Svalbarðsstrandarhreppur X
Dagbjört Pálsdóttir Akureyrarbær X
Elías Pétursson Langanesbyggð X
Eva Hrund Einarsdóttir Akureyrarbær X
Gestur Jensson Svalbarðsstrandarhreppur  
Hafrún Olgeirsdóttir Norðurþing X
Guðmundur B. Guðmundsson Akureyrarbær  
Gunnar I. Birgisson Fjallabyggð X
Gunnar Gíslason Akureyrarbær  
Gunnþór E. Gunnþórsson Dalvíkurbyggð X
Halla Björk Reynisdóttir Akureyrarbær X
Helena Eydís Ingólfsdóttir Norðurþing X
Helga Helgadóttir Fjallabyggð X
Helgi Héðinsson Skútustaðahreppur X
Hermann Ingi Gunnarsson Eyjafjarðarsveit X
Hilda Jana Gísladóttir Akureyrarbær X
Hjálmar Bogi Hafliðason Norðurþing X
Ingibjörg Ólöf Isaksen Akureyrarbær X
Ingibjörg G. Jónsdóttir Fjallabyggð X
Jón Stefánsson Eyjafjarðarsveit X
Jón Valgeir Baldursson Fjallabyggð  
Jón Þór Benediktsson Hörgársveit X
Jóna Björg Hlöðversdóttir Þingeyjarsveit X
Katrín Sigurjónsdóttir Dalvíkurbyggð X
Kristján E. Hjartarson Dalvíkurbyggð X
Lilja Guðnadóttir Dalvíkurbyggð X
Margrét Melstað Grýtubakkahreppur X
Kolbrún Ada Gunnarsdóttir Norðurþing X
Siggeir Stefánsson Langanesbyggð X
Sigurður Þór Guðmundsson Svalbarðshreppur X
Silja Jóhannesdóttir Norðurþing X
Sóley Björk Stefánsdóttir  Akureyrarbær X
Þröstur Friðfinnsson Grýtubakkahreppur X
Þorsteinn Gunnarsson Skútustaðahreppur X
     
Varafulltrúar Sveitarfélag  Mæting
Anna Karen Úlfarsdóttir  Svalbarðsstrandarhreppi X
Þórhallur Jónsson Akureyrarbær  X
Bergur Elías Ágústsson  Norðurþing  X
     
Aðrir gestir  Sveitarfélag  Mæting
Snorri Finnlaugsson Sveitarstjóri Hörgársveit X
Kristján Þór Magnússon Sveitarstjóri Norðurþingi X
Finnur Yngvi Kristinsson  Sveitarstjóri Eyjafjarðarsveit X