Uppbyggingaráætlun fyrir Akureyrarflugvöll

Mynd: Isavia.is
Mynd: Isavia.is

Verkfræðistofan Efla vann skýrslu fyrir Eyþing um uppbyggingaráætlun fyrir Akureyrarflugvöll með það að markmiði að styrkja flugsamgöngur við Norðurland eystra og með bættri aðstöðu gæti flugvöllurinn þjónað millilandaflugi og einnig sem varaflugvöllur. Áætlunin er unnin sem áhersluverkefni innan sóknaráætlunar Norðurlands eystra 2015 – 2019. Á síðastliðnu ári var leiguflug frá Bretlandi, alls 14 ferðir. Hluti þessara ferða féll niður vegna veðurskilyrða og líklegt að færri ferðir hefðu fallið niður ef flugleiðsaga hefði verið búin öruggari tækni en nú er. Einnig kom berlega í ljós að núverandi flugstöð getur ekki með góðu móti annað farþegum í millilandaflugi og að þörf fyrir stækkun flughlaða er mjög brýn. Horfa þarf til framtíðar hvað varðar öruggari flugleiðsögn. Í ályktun frá aðalfundi Eyþings fagnar fundurinn framkominni skýrslu verkfræðistofunnar Eflu um uppbyggingu Akureyrarflugvallar. Skorað er á ríkisstjórn ásamt ISAVIA að leggja fram áætlun um framtíðaruppbyggingu með hliðsjón af skýrslunni með það tvennt að markmiði: Að opna nýja gátt inn í landið hið fyrsta til að auka ferðaþjónustu utan suðvesturhornsins og að tryggja varavöll fyrir hina miklu flugumferð í Keflavík.

Skýrsluna má finna hér.