Frumvarp til laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi

Stjórn Eyþings sendi frá sér umsögn um frumvarp til laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi þann 23. febrúar sl.

Almennt um mikilvægi frumvarpsins.

Aðdragandi þessa frumvarps er orðinn mjög langur en eftir því hefur verið beðið. Hér er á ferðinni mjög mikilvægt frumvarp fyrir landshlutasamtök sveitarfélaga og þar með sveitarfélögin innan þess. Brýnt er í ljósi fenginnar reynslu að draga eins skýra línu og mögulegt er milli hlutverks almenningssamgangna annars vegar og hins vegar fólksflutninga í atvinnu- og hagnaðarskyni. Þá er mikilvægt að halda því til haga að samkeppni er tryggð um akstur á leiðum almenningssamgangna með því að þorri allra leiða er boðinn út.

Athygli hefur vakið sá mikli árangur sem náðst hefur eftir að ábyrgð á framkvæmd almenningssamgangna var færð til landshlutasamtakanna með samningum við Vegagerðina. Mynduð hafa verið heildstæð kerfi innan og milli landshluta sem rekin eru árið um kring. Verkefnið hefur styrkt innviði og bætt búsetuskilyrði. Aðkallandi er að laga- og rekstrarumhverfi almenningssamgangna verði skýrt og m.a. þarf einkaréttur að vera tryggur og njóta verndar til að hægt sé að þjónusta heildstætt kerfi almenningssamgangna innan og milli landshluta. Viðurlög við broti á einkarétti þurfa því einnig að vera skýr.

Í ljós hafa komið verulegir erfiðleikar í rekstri verkefnisins hjá landshlutasamtökunum m.a. vegna þess að einkarétturinn sem kveðið er á um í samningi við Vegagerðina hefur ekki verið virtur. Áfram verður því ekki haldið nema bætt verði úr, en samningar Vegagerðarinnar og landshlutasamtakanna renna út í árslok 2018.  Meðal úrbóta er að tryggja einkaréttinn og lagaumgjörðina með því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Verði lagaumgjörðin ekki bætt er aðeins um tvennt að velja, að ríkið komi með umtalsvert meira fjármagn í reksturinn eða að reksturinn færist aftur frá landshlutasamtökunum.

 

Sérstakar ábendingar.

7. grein. Stjórn Eyþings leggur ríka áherslu á að einkarétti skv. 7. grein sé ætlað að tryggja almenningssamgöngur á tilteknu landsvæði eða leiðakerfi en ekki á einstökum leiðum. Líta ber á almenningssamgöngur sem heildstætt kerfi líkt og er í nágrannalöndum  okkar.  Stjórn Eyþings hafnar því  að hægt verði  að fella  einkarétt á

 

ákveðinni leið úr gildi ef vænta má að sú leið innan leiðakerfisins skili rekstrarafgangi. Líta verður á leiðakerfið sem eina heild enda er hagnaður af einni leið notaður til að tryggja þjónustu á leiðum kerfisins sem ekki standa undir sér og sem í mörgum tilvikum þurfa mikla meðgjöf.

Vakin er athygli á því að tekjustreymi er að öllu jöfnu mjög ójafnt yfir árið og tekjur mestar yfir sumarmánuðina þegar fleiri farþegar greiða full fargjöld, þ.e. án afsláttar. Almenningssamgöngur eru reknar allt árið og því ótækt að aðrir akstursaðilar geti komið tímabundið inn á umræddar leiðir og fleytt rjómann af yfir besta rekstrartímann. Þessar tekjur þarf til að hægt sé að sinna heilsárs þjónustu.

Ástæða er til að vara við orðalagi í 2. mgr. 7. greinar: „Tryggt skal að samkeppni fái að halda sér á þeim svæðum og leiðum þar sem hún er þegar fyrir hendi“. Þetta atriði er mjög opið og þarf að útskýra betur. Lagt er til að bæta við orðunum „á heilsársgrundvelli“. Málsgreinin mun þá verða: „Tryggt skal að samkeppni fái að halda sér á þeim svæðum og leiðum þar sem hún er þegar fyrir hendi á heilsársgrundvelli“.

11. grein. Stjórn Eyþings telur að fella beri út 2. mgr. 11. greinar: „Samgöngustofu er heimilt að takmarka notkun strætisvagna utan þéttbýlis.“ Stjórnin leggst gegn því að veita Samgöngustofu svo mikið framsal á valdheimildum en slíkar óljósar heimildir geta reynst mjög íþyngjandi. Athygli vekur einnig að hvergi er útskýrt hvað átt er við með orðinu strætisvagn.

Ofangreint ákvæði leiðir hugann að því álitaefni hvort leyfa eigi standandi farþega um borð í almenningasvögnum utan þéttbýlis. Ekki er gott að hafa slíkt álitaefni undirliggjandi í ákvæði eins og hér að ofan. Varðandi álitaefnið um standandi farþega er rétt að hafa í huga að það er fátítt að farþegar þurfi að standa í landsbyggðarvögnum. Slíkt getur þó gerst í sérstökum tilvikum að inn komi stórir hópar og ekki sé sæti fyrir alla. Aðeins er þá um tvennt að velja, þ.e. að skilja hluta hópsins eftir eða kalla út aukavagn en öllum má ljóst vera að hvoru tveggja er illgerlegt. Í þessu samhengi er ástæða til að kynna sér bæði framkvæmd í nágrannlöndum og erlendar rannsóknir. Meðal annars liggur fyrir sænsk rannsókn á öryggi farþega annars vegar í einkabíl og hins vegar í almenningsvagni. Mikilvægt er því að fyrrnefnd málsgrein verði felld út.

 

Stjórn Eyþings tekur að öðru leyti undir umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga um frumvarpið.

 

Að teknu tilliti til ofangreindra athugasemda leggur stjórn Eyþings þunga áherslu á að frumvarpið nái fram að ganga á yfirstandandi þingi.

 

 

F.h. stjórnar Eyþings

 

 

_________________________________

Pétur Þór Jónasson

framkvæmdastjóri