Niðurstöður ráðstefnu um úrgangsmál

 

Eyþing og SSNV héldu sameiginlega ráðstefnu um úrgangsmál á Norðurlandi þann 2. maí 2016. 

Dagskrá ráðstefnunnar var eftirfarandi:
Ný stefnumið Sambands ísl. sveitarfélaga í úrgangsmálum og eftirfylgni svæðisáætlana.
-Lúðvík Gústafsson frá Sambandi ísl. sveitarfélaga.
Lífrænn úrgangur – meðhöndlun.
-Ólöf Jósefsdóttir frá Flokkun Eyjafjörður ehf.
Urðun í Stekkjarvík, staða og horfur.
-Magnús B. Jónsson frá Stekkjarvík.
Brennsluofnar fyrir áhættuvefi frá sláturhúsum, staða mála.
-María Markúsdóttir heilbrigðisfulltrúi.
Samstarf sveitarfélaga og hvað á að gera?
Staða úrgangsmála í Langanesbyggð.
-Elías Pétursson, sveitarstjóri Langanesbyggðar.
Samstarf sveitarfélaga á Norðurlandi í úrgangsmálum. Álit nefndar um málið. Nefndina skipa Magnús B. Jónsson, Eiríkur B. Björgvinsson og Kristján Þór Magnússon. 

Eftir erindin voru þátttakendum skipt upp í þrjá umræðuhópa.

Í hópi 1 fóru miklar umræður fram um þá stöðu sem uppi er hvað varðar brennsluofna sem afurðastöðvar á svæðinu hafa sótt um leyfi fyrir hjá sveitarfélögunum. Viðræður sveitarfélaga á Norðurlandi um aðkomu ríkisins að rekstri brennslustöðvar á svæðinu hafa ekki borið árangur og lítill áhugi virðist hafa verið á málinu hjá stjórnvöldum almennt undanfarin ár. 

Hópurinn velti fyrir sér hvort einhver möguleiki væri á að fresta upptöku þessara laga sem knýja á um þörf afurðastöðvanna til að farga úrgangi sínum með þessum hætti og þannig mögulega væri von til þess að stöðva fjárfestingu afurðastöðva á meðan raunverulegt samtal ætti sér stað við ríkið um framhaldið.

Það var jafnframt samdóma álit að samstarf þessara 18 sveitarfélaga sem að svæðisáætluninni koma sé algert lykilatriði ætli menn sér að eygja von til þess að setja málin í annan farveg en þann sem málið er komið í núna.

Meginniðurstaða: kanna möguleika á einni brennslu. Kanna möguleika á frestun á upptöku laga.

Í hópi 2 var rætt um nokkur atriði svo sem brennslumál og samstarf sveitarfélaga.

Brennslumál eru í lausu lofti. Hvað er framundan við förgun sjálfdauðra dýra? Er enn hægt að bregðast við eða á að benda á Kölku sem úrlausn með tilheyrandi kostnaði fyrir þá sem þurfa að nýta þá þjónustu. Lífrænn úrgangur er erfiðasti hlutinn. Einkum sláturúrgangur á sláturtíð og sjálfdauð dýr.

Að mati hópsins er skynsamlegt að sveitarfélög starfi saman t.d. um kynningarmál, tölfræði og úrgangsforvarnir. Sveitarfélögin þurfa að hafa nánara samtal um næstu skref. Samstarf hefur mikla kosti.

Þá benti hópurinn á að það vantar skarpari umgjörð frá Umhverfisstofnun og Umhverfisráðuneytinu um úrlausnir og leiðir. Aðilar á þessum markaði þurfa að vinna náið saman að skynsamlegum lausnum.

Meginniðurstaða: Formgera samstarfið.

Í hópi 3 var til umræðu formgerð á samstarfi, hvernig samstarf og fjárhagslegar hliðar á samstarfi og lausnum.

Stefnan er skýr með tilliti til Parísarsamkomulagsins. Dregið skal úr losun mengandi lofttegunda. Brennsluofnar eru ekki alveg í samræmi við þá stefnu.

Í hópnum var bent á að Sorpa er samnefnari fyrir höfuðborgarsvæðið og spurning hvort eigi að finna slíka lausn. Nauðsynlegt er að samræma endurvinnslu sveitarfélaganna og nýta þekkingu og reynslu hvers annars.

Rætt var um hvort hægt sé að nýta tóma flutningabíla sem hafi komið með sorp í Stekkjarvík til að flytja sláturúrgang í Moltu. Bent var á að urðun lífræns úrgangs sé slakasta lausnin og að stýra mætti afsetningu úrgangs með gjaldtöku.

Umræður um hvort úrgangsfyrirtækin geti rekið litlar brennslur og vangaveltur um brennslugáma eða litlar brennslustöðvar.

Í hópnum urðu umræður um ýmsar leiðir til samstarfs. Rætt var um nánari tengingu Moltu, Norðurár, annarra hagsmunaaðila og sveitarfélaga á Norðurlandi.

Niðurstaða hópsins var að þeirri hugmynd yrði beint til starfshóps um úrgangsmál að gerð verði könnun á kostnaði og öðrum hindrunum til að koma upp frekar lítilli brennslu á Norðurlandi. Kostnaði við þá athugun verði skipt með sama hætti og kostnaði við svæðisáætlun. Athugað verði með að koma á fagráði til að meta lausnir og hugsanlega vinna áfram með það sem þætti vænlegt til úrlausnar.

Meginniðurstaða: formgera samstarfið, könnun á kostum lítillar brennslu á Norðurlandi.

 

Sameiginleg niðurstaða ráðstefnunar var að skipa sérfræðistarfshóp sem mun skoða næstu skref og vinna áfram að samstarfi í málaflokknum undir stjórn þeirra Magnúsar B. Jónssonar, Eiríks B. Björgvinssonar og Kristjáns Þórs Magnússonar.