Menningarleiðangur verkefnisstjóra Eyþings og Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga

Silja og Vigdís Rún
Silja og Vigdís Rún

Silja Jóhannesdóttir, verkefnisstjóri atvinnuþróunuarfélags Þingeyinga, skipulagði menningarleiðangur fyrir verkefnisstjóra menningarmála hjá Eyþingi, Vigdísi Rún Jónsdóttur, dagana 29. og 30. ágúst sl.    

Ekið var að morgni miðvikudags frá Akureyri austur á Húsavík þar er menningarfulltrúi Eyþings, sem þetta ritar, hitti skipuleggjanda ferðarinnar Silju Jóhannesdóttur. Þaðan var haldið á Skjálftasetrið á Kópaskeri hvar Benedikt Björvinsson og Guðmundur Örn Benediktsson (Bói) tóku á móti þeim. Framtíð Skjálftasetursins á Kópaskeri var rædd ásamt metnaðarfullum tónlistarviðburðum sem Flygilvinir - tónlistarfélag við Öxarfjörð hafa staðið fyrir í rúman áratug. Flygilvinir halda að jafnaði þrenna tónleika ár hvert og nefnist tónleikaröðin þetta árið „Það er gaman að sækja tónleika“ en það verkefni ásamt Skjálftasetrinu er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra. Miðað hefur verið við að einn af tónlistaratburðunum sé haldinn í tengslum við Sólstöðuhátíðina á Kópaskeri. Eftir gott kaffispjall um menningarlífið á Kópaskeri skoðuðu verkefnisstjórarnir stórmerkilega sýningu á sjávarbakkanum sem Guðmundur Örn (Bói) setti upp í sumar. Sýninguna kallar hann „Heimildarlaus notkun bönnuð“ þar sem hann hefur stillt upp sjóreknu plasti er rekið hefur á land frá Kópaskeri og austur undir Raufarhöfn. Áður en Kópasker var hvatt heimsóttu þær stöllur Byggðasafnið á Snartarstöðum þar sem Hildur Óladóttir húsfreyja á Melum tók á móti þeim með rjúkandi kaffi og kökum og sagði frá sögu safnsins.  

Frá Kópaskeri var haldið á Raufarhöfn og þar tók enginn annar en þorpsskáldið Jónas Friðrik Guðnason á móti verkefnisstjórunum. Fyrir þá sem ekki vita var Jónas Friðrik hirðskáld Ríó tríósins í áratugi og hefur samið ógrynni af textum fyrir Björgvin Halldórsson og ýmsa aðra flytjendur. Jónas Friðrik er í stjórn hins stórmerkilega Heimsskautsgerði sem er sprottið upp úr vangaveltum frumkvöðulsins Erlings B. Thoroddsen (1945-2015) um „hvernig hægt er að virkja endalausa víðáttu, þar sem ekkert skyggir á sjóndeildarhringinn, heimskautsbirtuna og miðnætursólina“, eins og segir í ítarlegum bæklingi um sögu og tilurð Heimskautsgerðisins. Auk þess má geta að sjómannadagurinn er haldinn hátíðlegur ár hvert og að ógleymdum Hrúta- og menningardögum sem haldnir eru í byrjun október. Að því loknu var haldið á Hótel Norðurljós á Raufarhöfn, nyrsta hótel landsins, þar sem boðið var upp á dýrindis lax úr héraðinu.  

Eftir heimsóknina á Raufarhöfn var komið við á Fræðasetrinu um forystufé í Þistilfirði, en árið 2010 var félagið stofnað að frumkvæði Daníels Hansen sem rekur og sér um safnið. Fræðasetur um forystufé er einstaklega merkilegt safn þar sem fróðleik um íslenskt forystufé er safnað saman og gert aðgengilegt almenningi. Forystufé er einstakur stofn fjár sem finnst hvergi annarsstaðar í heiminum fyrir utan örfá fé í Ameríku og þess vegna ber Íslendingum að varðveita hann og kynna bæði innanlands og erlendis.   

Þórshöfn var næsti viðkomustaður þar sem Elías Pétursson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, fór yfir menningarstarfið í sveitarfélaginu s.s. Bryggjudaga og ýmsa tónlistarviðburði sem haldnir hafa verið á árinu. Eins ræddi hann um ýmsar hugmyndir sem gætu styrkt menningarlíf svæðisins, þar má nefna nýtingu á yfirgefnum húsnæðum á svæðinu undir listamannaíbúðir (residence), en það gæti orðið innspýting í menningarlífið í Langanesbyggð og fyrir svæðið í heild. Deginum luku verkefnisstjórarnir með heimsókn í Sauðaneshús á Langanesi sem er allt í senn menningarhús, upplýsingaþjónusta og kaffihús. Eftir langa og stífa dagskrá var ekið til Húsavíkur og þar snætt á hinu glæsilega Fosshóteli sem var krökkt af ferðamönnum og skapaði því lifandi og skemmtilega stemningu á miðvikudagskvöldi.  

Að morgni fimmtudags var haldið á Laugar á fund með Dagbjörtu Jónsdóttir sveitarstjóra Þingeyjarsveitar þar sem hún gerði grein fyrir hinu fjölbreytta menningarlífi sem hefur átt sér stað í sveitarfélaginu undan farin ár. Greint var frá Fornleifaskóla barnanna, Hinu Þingeyska fornleifafélagi og Þingeyska sagnagarðinum. Eins ræddi hún um hið öflugu kóra- og leiklistarstarf sem er starfrækt á svæðinu, Norðurljósarannsóknarstöðina Kárhól, Seiglu – miðstöð sköpunar, Tónhvíslina sem er undankeppni fyrir söngvakeppni framhaldsskólanna og örnafnaskráninguna Urðarbrunn svo eitthvað sé nefnt. Jafnframt var minnst á verkefnið „Matarskemman“, en það er fullbúið eldhús sem býður upp á vinnslu  kjötafurða, sultu- og sláturgerð, kryddþurrkun og bakstur úr hráefnum frá bændum úr héraðinu.  

Í Mývatnssveit er óhætt að segja að menningarlífið blómstri en þar hittu stöllurnar fyrir þau Þorstein Gunnarsson sveitarstjóra Skútustaðahrepps og Soffíu Kristínu Jónsdóttur framkvæmdastjóra Mývatnsstofu. Fjölbreytt menningar- og tónlistardagskrá er í boði allt árið um kring í Mývatnssveit, t.a.m. Hestar á ís sem haldin er í mars, Hundasleðakeppni, Músík í Mývatnssveit um páska, Píslargangan, Sumartónleikar við Mývatn, og síðast en ekki síst Jólasveinarnir í Dimmuborgum og Mývatnsmaraþonið sem Mývatnsstofa stendur fyrir, en báðir viðburðirnir eru styrktir af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra. Eftir dýrindis hádegisverð á veitingastaðnum Vogafjósi í Mývatnssveit ,þar sem verkefnisstjórarnir gæddu sér á úrvals hráefni úr héraði: hangikjöti, reyktum silung, heimagerðum ostum og  hverabrauði var brunað til baka á Húsavík.  

Á Húsavík tók Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings á móti þeim stöllum ásamt Kjartani Páli æskulýðs- og tómstundafulltrúa og Huld Hafliðadóttur fjölmenningarfulltúa Norðurþings. Á Húsavík eru haldnir fjölbreyttir menningarviðburðir ár hvert, m.a. Mærudagar, Sólstöðuhlaupið, Skjálfandi Art festival, Siglingadagarnir Sail Húsavík, Sænskir Dagar og Mávahátíðin. Hugmyndir að nýrri menningarstarfsemi á svæðinu var rædd á fundinum, svo sem opnun á gestavinnustofum og nýju tónlistarhúsi.  

Í Menningarmiðstöð Þingeyinga leiddi nýr forstöðumaður safnsins, Jan Askel, verkefnisstjórana um safnið og safnageymslurnar og fræddi um yfirstandandi sýningar og hvað væri framundan í safninu. Mikill metnaður hefur verið lagður í uppsetningu grunnsýninga safnsins sem eru tvær: annars vegar „Mannlíf og Náttúra - 100 ár í Þingeyjarsýslum“, en þar er fléttað saman náttúrugripum og munum úr Byggðasafni Þingeyinga frá 1850-1950, og hins vegar grunnsýning Sjóminjasafnsins sem sýnir þróun útgerðar og bátasmíði í Þingeyjarsýslum frá árabátaöldinni fram til vélbátaútgerðar.   

Eftir heimsóknina í Safnahúsið var haldið niður á höfn í Hvalasafnið þar sem Eva Björk Káradóttir tók á móti gestunum, en þess má geta að hún er ný tekin við sem forstöðumaður safnsins. Eftir stutt en gott spjall við Evu mátti heyra að ýmsar breytingar eru í vændum í safninu sem áhugavert verður að fylgjast með í framtíðinni.  

Að lokum var komið við á Könnunarsafninu á Húsavík sem er safn um sögu geimsins og geimleiðangra, þar sem Örlygur Hnefill Örlygsson, forstöðumaður og stofnandi safnsins sagði frá sýningum safnsins.  Aðalsýning safnsins er helguð geimferðum, æfingum amerískra tunglfara á Íslandi árin 1965 og 1967, sem og tilraunageimskotum frakka hérlendis frá 1964 til 1965. Eins fjallar sýningin um landkönnun víkinga og norrænna manna.  

Eftir áhugaverðan og fræðandi menningarleiðangur um sveitarfélögin austan Vaðlaheiða er ljóst að öflugt menningarlíf er á svæðinu, en lengi má gott bæta. Verkefnisstjóri menningarmála hjá Eyþingi vill minna á að opnað verður fyrir umsóknir í Uppbyggingarsjóð Norðurlands eystra um miðjan október og hvetur íbúa svæðisins til að senda inn umsóknir sem miða að því að efla menningarlífið á Norðurlandi eystra. Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér verklagsreglur uppbyggingarsjóðs sem má finna hér: