Málþing um áhersluverkefni Sóknaráætlunar Norðurlands eystra

Eyþing stóð fyrir málþingi um áhersluverkefni Sóknaráætlunar Norðurlands eystra þann 15. maí sl.

Málþingið hófst á örkynningum á áhersluverkefnum sem hófust í vetur, þar sem farið var yfir helstu markmið verkefnanna. 

1 SinfoniaNord – þjónusta og upptaka á sinfónískri tónlist í Hofi.

2 Okkar áfangastaður – markaðsgreining fyrir Norðurland.

3 Innviðagreining á Norðurlandi eystra.

4 Framtíðarskipan úrgangsmála á Norðurland.

5 Uppbyggingaráætlun fyrir Akureyrarflugvöll.

6 Ungt og skapandi fólk.

7 Menntunarþörf og tækifæri eftir starfssviðum og greinum á Norðurlandi.

 

Eftir örkynningarnar voru kynningar á verkefnum sem eru lengra komin eða lokið.  

Elva Gunnlaugsdóttir verkefnastjóri hjá AFE kynnti verkefnið GERT-grunnmenntun efld í raunvísindum og tækni á Norðurlandi eystra sem er samstarfsverkefni atvinnuþróunarfélaganna á svæðinu. Ein af forsendum verkefnisins er aukin eftirspurn eftir tæknimenntuðu fólki á vinnumarkaði. Verkefninu er ætlað að leiða af sér aukna þekkingu og áhuga á raunvísindum og tækni ásamt tengdu námi og störfum.

Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdarstjóri Markaðsstofu Norðurlands kynnti þrjú áhersluverkefni sem Markaðsstofan hefur verið í forsvari fyrir, Flugklasinn Air 66N, Birding Iceland og Local Food Festival.

Markmið Flugklasans er að koma á reglulegu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll allt árið. Á síðari stigum hefur verið aukin áhersla á pólitískan þrýsting í starfi klasans.

Markmið Birding Iceland er að Norðurland verði eftirsóknarverður áfangastaður fyrir fuglaskoðara og fólk þeim tengdum og að nýta sameiginlega krafta ferðaþjónustufyrirtækja og fuglaáhugafólks á öllu Norðurlandi til að þróa og kynna fuglaskoðun á Norðurlandi. Nú eru til þrír fuglastígar á Norðurlandi og ellefu skilgreindir áfangastaðir á Norðurlandi eystra þar sem er gott aðgengi til fuglaskoðunar, sérstakar fuglatengundir og aðstæður á einhvern hátt áhugaverðar. Það vantar fé til að byggja fleiri fuglaskoðunarskýli og hvatti Arnheiður fundarmenn til að kynna sér verkefnið betur.

Um 20 gestir komu frá Bretlandi í tilefni Local Food Festival en tilgangur með verkefnisins var að yfirfæra þekkingu milli landanna. Vonast er til að ný tækifæri komi til með Matarauði Íslands. 

Vigdís Rún Jónsdóttir verkefnisstjóri menningarmála hjá Eyþingi fór yfir áhersluverkefnið Þróun og ráðgjöf í menningarmálum. Markmið verkefnisins eru að starfandi verði verkefnisstjóri menningarmála (menningarfulltrúi) sem sinni þróun og ráðgjöf í menningarmálum og framfylgi þeirri stefnu sem fram kemur í Sóknaráætlun Norðurlands eystra með það að markmiði að Norðurland eystra verði leiðandi á sviði menningar, lista og skapandi greina. Vigdís Rún fór yfir erlent samstarfsverkefni, Creative momentum, þriggja ára verkefni sem er að ljúka nú í júní. Farið var yfir þær afurðir sem út úr verkefninu koma:

  • Creative Trails: Snjallsímaforrit sem heldur utan um ferðamannaslóðir til kynningar á skapandi greinum og söfnum á Norðurlandi.
  • Creative Business Model Toolkit: Viðskiptalíkan fyrir rekstur skapandi greina.
  • Economic & Social Impact Assessment: North East Iceland Creative Sector: Innviðagreininga á efnahagslegum og félagslegum áhrifum skapandi greina á Norðurlandi eystra.

Verið er að þýða viðskiptalíkanið og innviðagreininguna og verða þau kynnt frekar á svæðinu í haust. 

Snæbjörn Sigurðarson framkvæmdarstjóri Eims kynnti áhersluverkefnið  Eimur – samstarf um fjölnýtingu orkuauðlinda á Norðurlandi eystra.

Helstu markmið EIMS eru að:

  • Kortleggja og markaðssetja orkuauðlindir á starfssvæðinu með áherslu á fjölþætta nýtingu hliðarstrauma þeirra.
  • Stuðla að aukinni verðmætasköpun með sterkum stuðningi við nýsköpun.
  • Stuðla að bættri nýtingu auðlinda.
  • Stuðla að aukinni þekkingu á samspili samfélags, umhverfis og efnahags.
  • Fjölga möguleikum svæðisins til að takast á við áskoranir samtímans og gera svæðið leiðandi á heimsvísu þegar kemur að samspili orku, umhverfis og samfélags með sjálfbærni og verðmætasköpun að leiðarljósi.
  • Kortleggja og markaðsetja orkuauðlindir á starfssvæðinu með áherslu fjölþætta nýtingu hliðarstrauma þeirra og mögulegrar hliðarstrauma í annarra starfsemi. 

Snæbjörn kynnti hugmyndasamkeppni um matvælaframleiðslu með jarðvarma á Norðausturlandi en úrslit verða kynnt á viðburði í Hofi fimmtudaginn 7. júní kl 16:00. Einnig kynnti hann „Græna túrinn“ en það eru mislangar ferðir á áhugaverða staði í þessu samhengi. Búið er að setja upp þrjár ferðir og er sú fjórða í vinnslu. Þá er Eimur að vinna að námsefni fyrir elsta stig grunnskóla og vinnuskóla í samstarfi við HA þar sem lagt er áhersla á auðlindirnar okkar, ábyrgð, sjálfbærni og að hugsa til framtíðar.

Sólveig Zophoníasdóttir og Íris Hrönn Kristinsdóttir sérfræðingar hjá Miðstöð skólaþróunar HA kynntu áhersluverkefnið Skapandi skólastarf. Markmið verkefnisins er að styðja kennara á Norðurlandi eystra við að þróa starfshætti sína í anda íslenskrar menntastefnu og grunnþátta hennar með sérstakri áherslu á skapandi hugsun, tækni og virkni nemenda. Alls tóku um 70 kennarar frá 4 leikskólum og 14 grunnskólum þátt í námskeiðunum sem haldin voru. Sólveig og Íris sýndu fundarmönnum nokkur af þeim tækjum sem notuð eru við kennslu, tæki sem hafa reynst vel í kennslu um allan heim. 

Elva Gunnlaugsdóttir verkefnastjóri hjá AFE kynnti áhersluverkefnin Raforkuöryggi á Norðurlandi eystra og Smávirkjanakostir á Norðurlandi eystra en bæði verkefnin eru samstarfsverkefni atvinnuþróunarfélaganna á svæðinu. Verkefnið Raforkuöryggi á Norðurlandi eystra á að greina framboð og eftirspurn eftir raforku á svæðinu. Skýrsla um stöðu raforkumála í Eyjafirði liggur fyrir en sambærileg greining í Þingeyjarsýslum fer af stað í haust.

Verkefnið Smávirkjanakostir á Norðurlandi eystra gengur út á að kanna möguleika á aukinni sjálfbærni í orkumálum svæðisins. Skoðaðir voru kostir sem eru undir 10 MW og voru 30 kostir skoðaðir en áður höfðu verið skoðaðir 15 kostir í Dalvíkurbyggð. Skýrsla fyrir Eyjafjörð hefur verið kynnt og vinnan er í gangi á austursvæðinu og mun klárast í haust. 

Hægt er að kynna sér öll áhersluverkefni sem samþykkt hafa verið nánar hér.