Ályktun frá aðalfundi Eyþings 2018

Frá aðalfundi Eyþings 2018
Frá aðalfundi Eyþings 2018

Aðalfundur Eyþings, haldinn 21. og 22. september, í Mývatnssveit samþykkir eftirfarandi ályktun:

 

Uppbygging Akureyrarflugvallar
Aðalfundur Eyþings fagnar framkominni skýrslu verkfræðistofunnar Eflu um uppbyggingu Akureyrarflugvallar. Skorað er á ríkisstjórn ásamt ISAVIA að leggja fram áætlun um framtíðaruppbyggingu með hliðsjón af skýrslunni með það tvennt að markmiði: Að opna nýja gátt inn í landið hið fyrsta til að auka ferðaþjónustu utan suðvesturhornsins og að tryggja varavöll fyrir hina miklu flugumferð í Keflavík.

 

Almenningssamgöngur
Samningar um rekstur almenningssamgangna á vegum landshlutasamtakanna renna út í árslok 2018.  Fram hafa komið hugmyndir stjórnvalda um áframhaldandi rekstur á vegum landshlutasamtakanna á árinu 2019. Fundurinn leggur áherslu á að ekki verði haldið áfram að óbreyttu nema til komi aukið framlag frá ríkinu til rekstrarins og gefið verði vilyrði fyrir fjármagni vegna uppsafnaðra skulda verkefnisins.

 

Heilbrigðismál
Aðalfundur Eyþings krefst þess að sérfræðiþjónustu lækna sé dreift um landið en einskorðist ekki við höfuðborgarsvæðið. Afar mikilvægt er að Sjúkrahúsið á Akureyri verði mótvægi við Landsspítalann og því brýnt að hefja byggingu legudeilda við Sjúkrahúsið á Akureyri hið fyrsta. Jafnframt er mikilvægt að tryggja fjármagn til að efla heilsugæslu og geðheilbrigðsþjónustu í nærsamfélaginu.

 

Stafræn þjónusta um land allt
Aðalfundur Eyþings bendir á að ekki er sjálfgefið að þróun í stafrænni þjónustu felist í því að hún sé framkvæmd á höfuðborgarsvæðinu og störf á landsbyggðunum séu lögð niður. Stafræn þjónusta getur gengið hvort sem er til eða frá höfuðborgarsvæðinu og því auðvelt að skipuleggja starfsemi óháð staðsetningu.

 

Menntamál
Mikilvægt er að auka fjárveitingar til iðn- og tæknináms bæði á framhalds- og háskólastigi á svæðinu og auka kynningu á iðn- og tækninámi á grunnskólastigi.

 

Samgöngumál
Aðalfundur Eyþings fagnar áformum um uppbyggingu Dettifossvegar í samgönguáætlun en leggur áherslu á að mikilvægt er að tryggja fjármagn til áframhaldandi uppbyggingar annarra samgöngumannvirkja í landshlutanum. Sérstaklega verði horft til uppbyggingu vegar um Langanesströnd og Brekknaheiði.